Biðja um að fólk taki ekki myndir af John Snorra

Fjölskylda Johns Snorra ræðir möguleika um hinstu hvílu fjallgöngumannsins í …
Fjölskylda Johns Snorra ræðir möguleika um hinstu hvílu fjallgöngumannsins í tilkynningu. Af Facebook-síðu John Snorra

Fjölskylda Johns Snorra Sigurjónssonar biðlar til fjallgöngufólks að taka ekki myndir af líki hans þar sem það liggur á fjallinu K2 í Pakistan. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fjölskyldunni til þeirra sem eru á fjallinu núna.

John Snorri fannst látinn á K2 í júlímánuði í fyrra. Hann lagði af stað á toppinn í upphafi síðasta árs.

„Fjölskyldan yrði þakklát fyrir það ef engin myndbönd né ljósmyndir yrðu teknar af líki Johns,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar óskar fjölskyldan þess að ef myndefni er af einhverri ástæðu tekið sé haft samband við fjölskyldu Johns Snorra til þess að óska leyfis ef birta á efnið.

„Þetta eru okkar einlægu óskir.“

John Snorri verði grafinn með vinum sínum

Í yfirlýsingunni er farið yfir þá möguleika sem eru í stöðunni varðandi hinstu hvílu Johns Snorra. Fjölskyldan kýs að hann verði hann færður og grafinn þar sem vinir hans og fjallgöngumennirnir Ali Sa­dp­ara og Jaun Pablo eru grafnir. Að öðrum kosti sé hann færður frá gönguleiðinni þangað sem hann sést ekki.

„Fyrir mig og fjölskyldu mína sneri missirinn heiminum á hvolf og við þurftum sem fjölskylda tíma til að ræða tilfinningar og hugsanir okkar um hvað væri best að gera. Einnig hvað er hægt að gera á öruggan máta gagnvart öllum þeim sem hafa boðið okkur aðstoð sína,“ segir í yfirlýsingunni sem Lína Móey Bjarnadóttir, ekkja Johns Snorra, sendi út fyrir hönd fjölskyldunnar.

Einnig kemur fram að fjölskyldan hafi í fyrra beðið um að reipi sem John Snorri hékk í yrði ekki skorið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert