„Nú hef ég sjálf orðið fyrir ofbeldi og maður upplifir sig ekki sem fórnarlamb,“ segir Björk Guðmundsdóttir leikkona. Hún og sviðshöfundurinn Annalísa Hermannsdóttir sviðshöfundur settu upp leiksýningu víðsvegar um landið í sumar sem fjallar um ofbeldi og fundu þær, sem báðar hafa reynslu af ofbeldi, sterkt að sagan sem í verkinu er sögð yrði að komast sem víðast.
Sviðslistakonurnar eru gestir í nýjasta þætti Dagmála.
Í verkinu, sem heitir Stelpur og strákar og er skrifað af hinum breska Dennis Kelly, er einnig fjallað um kynjatvíhyggju og menninguna sem lætur ofbeldi verða til. Verkið er einleikur þar sem hlið þolandans heyrist skýrt.
„Við erum oft svo heltekin af ofbeldisverknaðinum sjálfum eða ofbeldismanninum en þarna fær þolandinn tvo og hálfan tíma með hléi í að segja sína sögu,“ segir Annalísa.
Í myndskeiðinu hér að ofan ræða listakonurnar m.a. um það að ofbeldi sé samfélagslegt vandamál sem snúist ekki um einhverja einstaka ofbeldismenn.
Aðalpersónan í verkinu er „algjör nagli“ og finnst listakonunum það endurspegla raunveruleikann betur en oft er gert.
„Hún er kannski sjálf líka einhver hluti af þessu kerfi og hún er að reyna að komast áfram og lifa af í þessu kerfi. Eins og hún segir í leikritinu: Ég var kannski enginn engill,“ segir Björk og bætir við:
„Konur sem ég þekki sem hafa orðið fyrir ofbeldi eru einmitt oft ekki eins og þær eru oft sýndar í bíómyndum eða þáttum; grátandi úti í horni.“