Ungt fólk muni komast inn á markaðinn

Sigurður Ingi við undirritunina í dag.
Sigurður Ingi við undirritunina í dag. mbl.is/Arnþór

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir þörfina fyrir húsnæðisuppbyggingu aðkallandi. Hann telur að þær aðgerðir sem voru kynntar í dag muni hjálpa ungu fólki að komast inn á fasteignamarkaðinn.

Í fyrsta sinn hafa ríki og sveit­ar­fé­lög gert með sér sam­komu­lag um sam­eig­in­lega sýn á aðgerðir og um­bæt­ur á hús­næðismarkaði til tíu ára og er samn­ing­ur­inn sá fyrsti sinn­ar teg­und­ar. Stefnt er að því að byggja rúmlega 35 þúsund nýj­ar íbúðir á ár­un­um 2023 til 2032.

Skrifað var undir samkomulagið í dag en samtöl við sveitarfélögin um að koma að verkefninu munu eiga sér stað síðar í sumar.

Hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk

Fasteignaverð hefur verið himinhátt síðustu misseri og hefur því verið erfitt fyrir fyrstu kaupendur að komast inn á markaðinn. Fyrir um mánuði síðan greip Seðlabankinn til aðgerða til að sporna við því að fyrstu kaupendur kæmu inn á markaðinn á röngum tíma.

Sigurður Ingi telur aðgerðir Seðlabankans vel til þess fallnar að slá á þensluna og er hann bjartsýnn á að sú húsnæðisuppbygging sem stendur til að fara í muni hjálpa ungu fólki að komast inn á fasteignamarkaðinn. Það þurfi bara að hinkra í smá stund.

„Menn munu halda aðeins að sér höndum og gefa okkur færi að byggja meira húsnæði þannig að það verði meira framboð, þar á meðal af hagkvæmu húsnæði sem hentar ungu fólki sem er að fara út og það verði þar af leiðandi miklu auðveldara fyrir þau í framhaldinu.“

Samningurinn var undirritaður í dag.
Samningurinn var undirritaður í dag. mbl.is/Arnþór

Alltaf hægt að klóra sér í kollinum

Spurður hvort ekki hefði átt að grípa til þessara aðgerða sem kynntar voru í dag fyrr segir Sigurður Ingi:

„Eins og alltaf þegar menn taka stór skref fram á við þá getur maður klórað sér í kollinum og spurt sig hvers vegna við gerðum þetta ekki tíu árum fyrr. Núna erum við komin með húsnæðis- og skipulagsmálin í sama ráðuneyti og við erum komin með mjög öfluga stofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), sem er lykilþáttur í þessu þar sem hún hefur verið að safna upplýsingum.

Við höfum einfaldlega ekki haft aðgang að þessum upplýsingum um hver staðan er, fyrr en núna. Það er vinna síðustu ára þannig að núna getum við tekið þetta skref. Hefðum við átt að gera þetta fyrir tíu eða tuttugu árum? Já alveg örugglega, en þá höfðum við bara ekki möguleika á því. En núna erum við á því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert