Uppbygging á landsbyggðinni ekki síður mikilvæg

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Sigurður Ingi Jóhannsson …
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra við undirritun samningsins í dag. mbl.is/Arnþór

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir risastórt skref hafa verið tekið í dag þegar ríki og sveitarfélög undirrituðu samkomulag um uppbyggingu rúmlega 35 þúsund íbúða næstu tíu árin. Telur hún beinan fjárstuðning frá ríkinu skipta sköpum.

Þetta kom fram í máli Aldísar í samtali við mbl.is að lokinni undirritun samningsins í dag. 

„Þetta er risastórt skref og mjög mikilvægur áfangi að hafa náð þessu samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga um að ríkisvaldið ætli að koma með beinan fjárstuðning, með einum eða öðrum hætti, til sveitarfélaganna til þess að liðka fyrir uppbyggingu á íbúðarhúsnæði.“

Stuðningurinn mismunandi milli sveitarfélaga

Ekki liggur fyrir hvernig stuðningur verður á hverjum stað fyrir sig, samið verður um það við hvert sveitarfélag fyrir sig. 

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherrra sagði í samtali við mbl.is í dag að hann vonaðist til að hægt yrði að ljúka samningum við flest sveitarfélög fyrir áramót.

„Þetta getur verið allskonar. Við vitum ekki enn þá með hvaða hætti þessi stuðningur verður, enda verður hann mismunandi á milli sveitarfélaga. Á einum stað getur mögulega hentað að styðja við orkuöflun. Á öðrum stað gæti þurft að aðstoða með einhverjum hætti við aðra innviði, eins og skóla og leikskóla uppbyggingu, og á þeim þriðja gæti verið eitthvað allt annað sem þyrfti að skoða. Þess vegna er þetta í raun sett heim í hérað til þess að þetta samtal fari fram milli sveitarfélaganna og ríkis eða Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­unar,“ segir Aldís.

Öll sveitarfélög skoði sína möguleika

Aldís býst ekki við því að öll sveitarfélög landsins muni koma að þessu verkefni, enda séu þau mörg og mismunandi. Hún efast þó ekki um að öll sveitarfélög á landinu muni núna í kjölfarið á þessari undirritun skoða sína möguleika varðandi samkomulagið.

Þá vonast hún til að öll sveitarfélög stigi með einhverjum hætti inn á fasteignamarkaðinn, ekki síst þau sem eru á landsbyggðinni.

„Það er mikilvægt að muna það að uppbygging út um allt land skiptir máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert