Runólfur tekur undir með Birni Zoëga

Runólfur Pálsson er bjartsýnn á framtíð Landspítalans.
Runólfur Pálsson er bjartsýnn á framtíð Landspítalans. Mbl.is/Arnþór Birkisson

Runólfur Pálsson, forstjóri Landsspítalans, tekur undir með Birni Zoëga, nýskipuðum stjórnarformanni Landspítalans, að eðlilegt sé að endurskoða skipurit spítalans. Hann hlakkar til samstarfsins við hina nýju stjórn og telur bjart vera fram undan.

Viðtal við Björn birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem hann ræddi áskoranir spítalans og mögulegar lausnir á þeim. 

Spurður hvort skrítið sé að fá fyrrverandi forstjóra spítalans sem stjórnarformann segir Runólfur svo ekki vera, þeir hafi átt í ágætu samstarfi fram til þess.

„Þeim mun frekar vil ég nýta mér þá miklu reynslu og þekkingu sem Björn hefur á rekstri stórra sjúkrahúsa. Hann hefur auðvitað náð framúrskarandi árangri í starfi sínu á Karolinska háskólasjúkrahúsinu. Ég vænti þess að þetta verði árangursríkt samstarf.“

Skoða þurfi hvert starf fyrir sig

Björn sagði við Morgunblaðið að ástæða væri til að einfalda stjórnskipulag Landspítalans. Telur hann of margt starfsfólk á spítalanum sem ekki er að vinna við það að þjónusta sjúklinga, en það vakti athygli á sínum tíma þegar Björn sagði upp nokkur hundruð millistjórnendum hjá Karolinska.

Runólfur telur eðlilegt að endurskoða skipurit spítalans af og til. Það sé mikilvægt að stjórnskipulag sjúkrahúsa sé einfalt og skilvirkt þannig að unnt sé að taka skjótar ákvarðanir sem nýtast notendum þjónustunnar. Hann segist ekki geta sagt til um hversu marga millistjórnendur væri hægt að losna við, greina þurfi hvert starf fyrir sig.

„Ég tek undir það að við þurfum að endurskoða skipurit spítalans og ég hef talað fyrir því sjálfur. Það þarf að skoða mjög vel hvaða útfærsla hentar okkur best,“ segir hann og bætir við:

„Það þarf að skoða hvert einasta starf og tryggja að stjórnskipulagið styðji vel við þá þjónustu sem spítalinn veitir. Það er vinna sem þegar er hafin.“

Jafnframt segir hann að endurskoða þurfi hlutverk spítalans til að hjálpa við að leysa mönnunarvandann, en hann telur hlutverk spítalans mjög víðtækt í íslenskri heilbrigðisþjónustu. 

„Spítalinn er að sinna ýmsum verkefnum sem að ættu jafnvel heima á öðru þjónustustigi. Það hefur svo áhrif á mannauðinn og þörfina fyrir mannafla.“

Nefnir hann sérstaklega verkefni á sviði öldrunarþjónustu og bráðaþjónustu. Þannig dvelji fjöldi einstaklinga langdvölum á spítalanum eftir að meðferð þeirra á spítalanum lýkur vegna þess að þeir komast ekki í önnur úrræði, það kosti einnig mannauð.

Starfsmenn þurfi að vera sveigjanlegir

Björn segir jafnframt að endurskoða megi hvernig verkaskiptingu innan spítalans sé háttað. Sem dæmi nefndi hann að þegar hjúkrunarfræðingar eru ráðnir í Finnlandi séu þeir ráðnir á spítalann, ekki bara ákveðna deild. 

„Við þurfum að hafa sveigjanleika þannig að hjúkrunarfræðingur hafi þekkingu til að sinna störfum á einstaka deildum en geti líka unnið á milli deilda,“ sagði Björn.

Runólfur tekur undir með Birni.

„Ég er sammála því. Við erum í raun á krossgötum hér, reyndar eins og mörg sjúkrahús annars staðar. Það er mikil mannekla í röðum heilbrigðisstarfsmanna. Hún kemur mismunandi niður á hinum ýmsu einingum og við verðum að geta brugðist við því og við verðum að hafa meiri sveigjanleika en við höfum haft fram til þessa.“

Þá segir hann að einnig megi endurskoða hlutverk einstakra heilbrigðisstétta, nýta þurfi ýmsar stéttir betur. 

Tækifæri til fjölgunar

Björn telur skjóta skökku við að vera með kvóta á fjölda nemenda í heilbrigðisgeiranum, þar sem að þörfin á auknu vinnuafli er mikil. Telur hann spítalann geta menntað fleiri en hann hefur gert.

Runólfur telur að tækifæri séu til að fjölga nemendum á spítalanum en bendir jafnframt á að nemendum í bæði læknis- og hjúkrunarfræði hafi verið fjölgað á síðustu árum.

Hann segir að til þess að hægt verði að taka á móti enn fleiri nemendum þurfi að þróa innviði spítalans þar að lútandi og sama eigi við um ýmsar aðrar heilbrigðisstofnanir sem komi að kennslu og handleiðslu nemenda í heilbrigðisvísindagreinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert