Heilsugæslan flytur í húsnæði Heimsferða

Skógarhlíð 18 verður nýtt húsnæði heilsugæslunnar í Hlíðum.
Skógarhlíð 18 verður nýtt húsnæði heilsugæslunnar í Hlíðum. Skjáskot/Já.is

Heilsugæslan Hlíðum mun flytja í húsnæði Heimsferða að Skógarhlíð 28, en Kaldalón hf. hefur fest kaup á húsnæðinu.

Jónas Guðmundsson, fjármálastjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir gamla húsnæðið vera úrelt og of lítið fyrir starfsemi heilsugæslunnar.

„Þetta hefur verið langur ferill. Heilsugæslan í Hlíðum hefur verið í úreltu og ófullnægjandi húsnæði í langan tíma. Framkvæmdasýslan lét fara fram útboð fyrir okkur og það endaði með samningi um þetta hús. Það er nýbúið að ganga frá leigusamningi,“ segir Jónas í samtali við mbl.is.

„Núverandi húsnæði er orðið allt of lítið en þetta verður líka miklu hentugra. Hitt húsnæðið er á fjórum hæðum inni í miðju íbúðahverfi en það verður rýmra um okkur á nýja staðnum.“

Núverandi húsnæði heilsugæslunnar þykir of lítið og óhentugt.
Núverandi húsnæði heilsugæslunnar þykir of lítið og óhentugt. Ljósmynd/Friðrik Tryggvason

Óljóst hvenær flutt verður

Jónas Guðmundsson, fjármálastjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og staðgengill Óskars Reykdalssonar …
Jónas Guðmundsson, fjármálastjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og staðgengill Óskars Reykdalssonar forstjóra. mbl.is

Hverfið sem heilsugæslan sinnir hefur stækkað mikið með nýrri byggð í Vatnsmýri og Hlíðarenda.

„Við þurfum að geta þjónað Hlíðarendahverfinu og Vatnsmýrinni. Reyndar nær þjónustusvæði þessarar stöðvar alveg niður að sjó hinum megin, niður hjá Borgartúni og að Sæbraut,“ segir Jónas og er því um stórt svæði að ræða.

„Þetta er mjög spennandi að fá nýja og fína aðstöðu fyrir þetta hverfi.“

Hann segir það þurfa að koma í ljós hvað framkvæmdir í nýju húsnæðinu taki langan tíma til þess að heilsugæslan geti flutt sig um set, en í tilkynningu um kaup Kaldalóns hf. á húsnæðinu segir að áætluð afhending á húsnæðinu sé um sumarið 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert