Áttar þig á að lífið getur horfið á einni sekúndu

Róman Drahúlov kom til landsins í mars og starfar nú …
Róman Drahúlov kom til landsins í mars og starfar nú hjá Faxaflóahöfnum. mbl.is/Árni Sæberg

Róman Drahúlov er einn þeirra sem hefur þurft að flýja heimili sitt í Úkraínu vegna innrásar Rússa. Hann er 22 ára og kom til Íslands 10. mars, en hafði frá árinu 2017 ætlað sér að flytja til landsins.

„Ég var þá að horfa til Norðurlandanna, vegna lífsgæðanna og af því að mér líður vel í kuldanum. Ísland hvarflaði ekki að mér fyrr en ég fór að kynna mér söguna og menninguna. Hér býr gott fólk, það besta sem ég hef kynnst,“ segir Róman.

Öll fjölskylda hans er í Úkraínu. „Faðir minn, allir bræður mínir og tveir frændur mínir eru atvinnuhermenn og eru að berjast fyrir Úkraínu núna.“

Erfitt að þurfa að byrja upp á nýtt

Róman talar við fjölskyldu sína á hverjum degi. Foreldrar hans flúðu til Ódessa frá heimaborg þeirra, Berdyansk, en hún var hernumin á fyrstu vikum stríðsins. „Heimili okkar og allt sem við áttum hefur verið hernumið og við vitum ekki hvort það verði lengur okkar, þegar þangað er aftur snúið.“

Systir hans, sem er herlæknir, flúði frá heimaborginni til Kænugarðs ásamt tveimur ungum börnum sínum. „Það er erfitt að missa allt sem maður átti og þurfa að byrja algjörlega upp á nýtt,“ segir Róman.

„Ef eitthvað lendir á húsinu þínu, eins og eldflaugar, eru mjög litlar líkur á að það sé eitthvað eftir. Eftir að stríðið hófst áttar þú þig á því að líf þitt, allt sem þú átt, getur horfið á einni sekúndu.“

Ráðinn í starf hjá Faxaflóahöfnum

Róman er lærður vélstjóri og var ráðinn í starf hjá hafnarþjónustu Faxaflóahafna 13. mars. Hann starfaði áður á skipi í tvö og hálft ár.

„Ég hef heimsótt mörg lönd í öllum heimsálfunum og þess vegna er ég svo viss um að mér líki að búa á Íslandi, vegna þess að ég hef séð öðruvísi líf.“ Róman segist þó ekki vera viss um að Ísland sé lokaáfangastaður, en hefur ekki hugsað sér að fara aftur til Úkraínu.

„Það gengur mjög vel í vinnunni og mér líður vel þar. Þegar ég vann á sjó var ég í lokuðu umhverfi og sá sömu tuttugu andlitin á hverjum degi, þetta er mjög ólíkt því. Ég vann í sex klukkustundir og fékk sex klukkustundir í hvíld, þú nærð kannski að sofa í fjórar klukkustundir hverju sinni, það eru erfiðar vinnuaðstæður.“

Tekur fram skrifblokkina til að læra íslensku

„Allir í vinnunni tala íslensku og þegar ég hef lausan tíma, tek ég fram skrifblokkina mína og penna og reyni að læra íslensku, þar sem mig langar að búa hérna til framtíðar reyni ég að læra eins og ég get. Ég skil stundum hvað fólk er að tala um, ég get notað einfaldar setningar og svoleiðis.“

Fólk hefur tekið vel á móti Róman sem segir mikilvægt að flóttafólki og innflytjendum líði ekki eins og það sé einangrað. „Ég vil bara þakka öllum sem hafa hjálpað okkur, alveg frá Úkraínu og hingað til Íslands, þið eruð að gera mikið fyrir okkur,“ segir Róman að lokum.

Róman Drahúlov er einn af sex úkraínskum flóttamönnum sem mbl.is ræddi við sem hafa fengið atvinnu á Íslandi, en viðtölin verða öll birt yfir helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert