Íslendingum boðið til Rúmeníu

Bærinn Viscri er á heimsminjaskrá UNESCO.
Bærinn Viscri er á heimsminjaskrá UNESCO. Ljósmynd/Heritage for the Future Cultural Association

Georgiana Pogonaru, ræðismaður Íslands í Rúmeníu og forseti menningarfélagsins Arfleifð framtíðar, segir ungum Íslendingum velkomið að sækja um að gerast sjálfboðaliðar vegna menningarstarfs í Rúmeníu.

Nánar tiltekið býðst ungum fræðimönnum og nemum, sem eru 20 til 32 ára, að gerast sjálfboðaliðar í verkefnum sem tengjast varðveislu menningarminja.

Styrkir vegna kostnaðar

Umsóknarfrestur er til og með 5. ágúst en veittir eru styrkir vegna útlagðs kostnaðar, líkt og útskýrt er á vefsíðu Mihai Eminescu-sjóðsins (MET) en vefslóðin er mihaieminescutrust.ro. Segir þar að yfirleitt greiði viðkomandi verkefni á vegum sjóðsins kostnað vegna samgangna, gistingar og fæðis.

Georgiana segir menningarfélagið Arfleifð framtíðar leggja verkefninu lið í samstarfi við Mihai Eminescu-sjóðinn og bæjarstjórn Viscri en það er sögufrægt þorp í Transylvaníu.

Markmið verkefnisins er meðal annars að afla þátttakendum reynslu af stjórn og verndun menningarminja en Viscri er á heimsminjaskrá UNESCO.

Tengist starfi UNESCO

Umrætt starf tengist verkefni sem ýtt var úr vör 2008 (e. World Heritage Volunteers) en það er aftur tengt Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Miðar verkefnið að því að virkja ungmenni og ungliðasamtök í verndun sögulegra minja.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert