Keppendur þurftu að fara krókaleið vegna snjós

Í Laugavegshlaupinu hlaupa keppendur Laugaveginn milli Landmannalauga og Þórsmerkur.
Í Laugavegshlaupinu hlaupa keppendur Laugaveginn milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Ljósmynd/Aðsend

Laugavegshlaupið endaði með pompi og prakt í dag, með góðum árangri keppenda að sögn Silju Úlfarsdóttur, eins skipuleggjenda hlaupsins. Hún segir að mikið hafi verið um bætingar í hlaupinu. 

Arnar Pétursson og Andrea Kolbeinsdóttir voru sigurvegarar hlaupsins í ár, sem spannar 55 kílómetra. Arnar var á tímanum fjórar klukkustundir og fjórar mínútur en Andrea var á tímanum fjórar klukkustundir og 33 mínútur.

Bætti sig um tuttugu mínútur

Þetta var í annað skipti sem kona klárar Laugavegshlaupið á minna en fimm tímum. Síðast þegar það gerðist var í fyrra þegar Andrea varð fyrst kvenna til að klára hlaupið á undir fimm klukkustundum. Hún bætti upphaflega mótsmetið sitt frá því í fyrra um 20 mínútur í dag.

Silja segir að það hafi ræst vel úr veðri og að það hafi farið fram úr væntingum allra enda hafði veðurspáin ekki verið sérlega góð. Þrátt fyrir gott veður gerði snjór hlaupendum grikk í Landmannalaugum. 

„Aðstæður voru svolítið erfiðar í Landmannalaugum. Það var var svo mikill snjór í byrjun og því þurfti að breyta leiðinni aðeins.“ 

Fóru keppendur því stutta krókaleið í byrjun hlaups en að sögn Silju hlupu þeir meðfram snjónum. Hún segir að þrátt fyrir þetta hafi hlaupið gengið einkar vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert