Með orðabók og talar íslensku við sjúklingana

Elena Kartsévskaja er menntaður læknir.
Elena Kartsévskaja er menntaður læknir. mbl.is/Arnþór

Elena Kartsévskaja er 60 ára gömul og starfar á Landspítalanum. Hún er frá Úkraínu en þurfti að flýja landið vegna innrásar Rússa. Hún segist vera Íslendingum mjög þakklát. „Ég finn fyrir því að fólki er annt um mig, og ég veit að fleirum frá Úkraínu líður eins,“ segir hún.

Elena hefur alltaf starfað í heilbrigðiskerfinu. „Það var áhugavert fyrir mig að fá starf í heilbrigðiskerfinu hér, mér líkar mjög vel að starfa á spítalanum og hef mikinn áhuga. Ég vil leggja mitt af mörkum fyrir þetta land.“

Hún hefur lokið læknanámi í Úkraínu en hefur þó ekki getað starfað sem læknir hér á landi. „Það er ekki hægt vegna þess að ég þarf að sýna önnur skjöl samhliða prófskírteininu mínu. Þetta er öðruvísi uppsett hérna.“

Elena segist þurfa að taka aðra áfanga á Íslandi og bætir við að það sé mjög gott plan fyrir framtíðina.

„Gott tækifæri og mikil áskorun“

„Í okkar landi er ekki töluð mikil enska daglega, en núna er ég í góðri æfingu, það kemur sér mjög vel. Ég er einnig byrjuð að læra íslensku. Ég tala oftast ensku við starfsfólkið en sjúklingarnir tala yfirleitt á íslensku og ég reyni að skilja þá, það er mjög gott tækifæri fyrir mig og mikil áskorun.

Það er sagt að fólk á mínum aldri eigi oft erfiðara með að læra nýtt tungumál, auðvitað er það erfitt en ég get þetta. Nú hef ég mína litlu orðabók og tala við sjúklingana á íslensku.“

Elena á tvær dætur og hefur sú eldri búið á Íslandi í nokkurn tíma. Í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu kom Elena til Íslands ásamt yngri dóttur sinni og búa þær saman í íbúð, en Elena hefur einu sinni áður komið í heimsókn til landsins.

Hún segist finna fyrir miklum stuðningi frá Íslendingum. „Ég hef eignast nýja íslenska vini og þau styðja okkur og eru alltaf reiðubúin til að svara öllum okkar spurningum.“

Elena Kartsévskaja er ein af sex úkraínskum flóttamönnum sem mbl.is ræddi við sem hafa fengið atvinnu á Íslandi, en viðtölin verða öll birt yfir helgina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert