Ritsmíði borgarskáldsins ekki getið

Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins. Ljósmynd/Sigmundur Ernir Rúnarsson

Sumir lesendur nýjasta tölublaðs Heima er bezt hafa mögulega upplifað að þeir væru að lesa grein í tímaritinu í annað eða jafnvel þriðja sinn þegar þeir lásu um Kristján Jónsson Fjallaskáld. Greinin í tímaritinu er undir nafninu Á mér alltaf að líða illa? og er Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, titlaður höfundur. Greinin hefur áður birst á prenti en það var árið 1983 í Helgarblaði DV undir sama nafni.

Athygli vekur að um helmingur greinarinnar er ritaður orðréttur úr grein Tómasar Guðmundssonar, sem nefndur hefur verið borgarskáldið, um Kristján Fjallaskáld í bókinni Minnisverðir menn, sem kom út árið 1968 sem hluti af ritröðinni Íslenzkir örlagaþættir.

Í grein Sigmundar Ernis í DV og svo aftur nú í Heima er bezt er hvergi vísað í grein Tómasar eða getið heimilda.

Afkomendur Tómasar, sem Morgunblaðið ræddi við í gær, telja um ritstuld að ræða en segjast ekki viss hvort þau geri mál úr þessu að svo komnu.

Hissa að greinin hafi birst aftur

Spurður um málið segist Sigmundur Ernir ekki muna eftir greininni sem hann skrifaði árið 1983 og kannaðist heldur ekki við að greinin hefði birst aftur núna í Heima er bezt.

Nýjasta tölublað Heima er bezt.
Nýjasta tölublað Heima er bezt.

Eftir stutt samtal segir hann að Sigurjón Magnús Egilsson, ritstjóri Heima er bezt, hafi líklegast birt gamla grein eftir sig. Sigmundur Ernir minnist þess þó að Sigurjón hafi spurt sig eða tilkynnt sér að hann myndi birta greinina.

„Ég skil ekki af hverju hann er að birta greinina aftur,“ segir Sigmundur Ernir við Morgunblaðið.

Hann segist ekki muna hvort hann hafi fengið leyfi hjá Tómasi Guðmundssyni á sínum tíma en skáldið lést átta mánuðum eftir að grein Sigmundar Ernis birtist í DV. „Það er svolítið erfitt að rifja upp 40 ára blaðaskrif.“

Sigurjón segist ekki hafa vitað að um helmingur greinarinnar væri ritaður upp úr grein Tómasar þegar hann ákvað að endurbirta hana. Hann segir að um einhvers konar misskilning sé að ræða og bætir við að hann hafi yfir kaffibolla fyrir nokkru spurt Sigmund hvort hann mætti birta greinina.

„Ég er alveg viss um að skáldið Sigmundur Ernir hafi ekki vísvitandi verið að stela frá Tómasi Guðmundssyni, það hefur bara farist fyrir að vísa í hann í greininni árið 1983. Þetta er bara klaufalegt og ég vissi ekkert um þetta.“

Sigurjón segist ætla að leiðrétta þennan misskilning í næsta tölublaði af Heima er bezt. „Ég segi bara í næsta blaði að það hafi farist fyrir að geta Tómasar og við biðjumst afsökunar á því. Þetta eru bara mistök og ekki gert af illum hug.“

Hann segist ekki hafa áhyggjur af að eitthvert mál verði úr þessu sökum ritstuldar. „Ég hef enga trú á því.“

Tómas ólíklega veitt leyfi

Guðmundur Tómasson, sonur Tómasar Guðmundssonar, segist koma af fjöllum hvað þetta varðar og segir að málið komi sér töluvert á óvart. Hann bendir á að mögulega gæti Sigmundur Ernir hafa fengið leyfi hjá Tómasi sjálfum fyrir greininni því hún var skrifuð nokkrum mánuðum áður en hann lést.

„Við erum seinþreytt til vandræða,“ segir Guðmundur og telur ólíklegt að þetta verði að einhverjum ágreiningi.

Barnabarn Tómasar, Tómas Guðmundsson, sem á höfundarréttinn að verkum skáldsins ásamt bróður sínum, Ragnari Guðmundssyni, telur það hins vegar afar ólíklegt að Sigmundur Ernir hafi fengið leyfi frá Tómasi sjálfum þegar greinin var skrifuð 1983, og vísar þar til veikinda skáldsins síðustu ævidagana. Hann telur því líklegt að um ritstuld sé að ræða.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert