„Ég óska eftir því að þessum árásum linni“

Tomasz Þór Veruson fjallaleiðsögumaður.
Tomasz Þór Veruson fjallaleiðsögumaður. Ljósmynd/Aðsend

„Á meðan árásir, ofbeldi, sögusagnir og lygar grassera í minn garð fæ ég ekki rými til að halda áfram með líf mitt,“ skrifar Tomasz Þór Veruson fjallaleiðsögumaður í pistli á Vísi, en hann var ásakaður um ofbeldi í byrjun árs, meðal ann­ars af hálfu fyrr­ver­andi kær­ustu sinn­ar Vil­borg­ar Örnu Giss­ur­ar­dótt­ur pólfara. 

Tomasz lýsir í pistlinum hvernig Vilborg og önnur kona komu fram í janúar og lýstu ofbeldinu sem þær höfðu orðið fyrir. 

„Til að taka það strax fram hef ég nú þegar gengist við því að hafa beitt andlegu ofbeldi í báðum þessum samböndum. Á þessum tíma glímdi ég við andleg vandamál tengd áföllum í æsku. Það skýrir að verulegu leyti viðbrögð mín við erfiðum aðstæðum en það afsakar þó á engan hátt framkomu mína,“ skrifar hann í pistlinum. 

Þá tekur hann það fram að hann hafi beðið konurnar afsökunar bæði áður og eftir að samböndum og öllum samskiptum þeirra hafi lokið fyrir þremur árum síðan. 

„En hverju var ég að biðjast afsökunar á? Ég skilgreindi framhjáhald og óheiðarlega framkomu mína í garð ástvina sem andlegt ofbeldi og gerðist sekur um það í báðum samböndum. Ég baðst afsökunar á því.“

Tomasz kveðst aftur á móti ekki hafa beðist afsökunar á líkamlegu ofbeldi, kynferðisofbeldi eða kúgunartilburðum, „enda er ég ekki sekur um neitt slíkt“.

Stöðugt samvikubit

Lýsir Tomasz þá í pistlinum samböndum sínum og að hann hafi haldið framhjá Vilborgu. 

„Þótt framhjáhald sé óafsakanlegt leggur það þolandanum líka ákveðið vopn í hendur. Það er hægt að ná heilmiklum völdum yfir maka sínum með því að spila stöðugt á samviskubit,“ skrifar hann.

Tomasz bætir við að Vilborg hafi þó ráðið hann í vinnu eftir sambandið. „Núna, eftir öll þessi ár, spyr ég sjálfan mig að því af hverju var þessi mikli vilji fyrir því að starfa með meintum ofbeldismanni sínum?“

Samstarfið hafi stirðnað í lok árs 2020 og segir Tomasz að umsamin laun hans hafi aðeins verið greidd að litlum hluta og að ítrekað hafi verið horft fram hjá þeirri vinnu sem hann lagði fram.

Ári síðar segist hann hafa komist að því að hann sé ennþá ábyrgðarmaður fyrir skuldum fyrirtækis Vilborgar sem hann var hættur hjá. 

Íhugaði að höfða meiðyrðamál

Að lokum segir Tomasz að hann hafi íhugað að fara í meiðyrðamál gegn hinni fyrrverandi kærustu sinni, „en þar sem dómsmál eru tímafrek hef ég ákveðið að byrja á því að koma sjálfur á framfæri leiðréttingu“.

Rekur hann þá mál sitt í pistlinum og nefnir að pistill hennar hafi orsakað að 95% allra þátttakenda sem skráðir voru í komandi verkefni hans á árinu 2022 hafi óskað eftir endurgreiðslu.

„Ég óska eftir því að þessum árásum linni og ég fái rými til að halda áfram með líf mitt.“

mbl.is
Loka