Lærði að hlaupa eftir tvítugt

Úlfur Eldjárn lofar að grípa í saxófóninn við endalínuna í …
Úlfur Eldjárn lofar að grípa í saxófóninn við endalínuna í Reykjavíkurmaraþoninu nái áheitin milljón króna markinu. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég var algjör antísportisti í æsku og móðir mín heldur því fram að ég hafi ekki lært að hlaupa fyrr en eftir tvítugt. Ég er enginn afreksmaður en áttaði mig á því fyrir nokkrum árum að þess þarf alls ekki til að hafa gaman af því að fara út að hlaupa. Maður gerir þetta bara á sínum forsendum – og á sínum hraða. Ég hef raunar miklu meira yndi af því að hlaupa hægt en hratt, þannig nýtur maður þess betur, auk þess sem það fer betur með líkamann.“

Þetta segir Úlfur Eldjárn tónlistarmaður en hann er að fara að hlaupa hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu laugardaginn 20. ágúst og safna um leið áheitum fyrir Minningarsjóð Kristjáns Eldjárns gítarleikara, bróður síns, sem orðið hefði fimmtugur í síðasta mánuði en hann féll frá árið 2002, langt fyrir aldur fram, eftir baráttu við krabbamein. Það er raunar ekki eini bróðirinn sem Úlfur hefur misst en næstelsti bróðir hans, Ólafur, lést árið 1998. Hann glímdi við mikil veikindi alla sína ævi.

Úlfur og Kristján Eldjárn á nemendatónleikum hjá Tónmenntaskóla Reykjavíkur.
Úlfur og Kristján Eldjárn á nemendatónleikum hjá Tónmenntaskóla Reykjavíkur.


Minningarsjóður Kristjáns Eldjárns gítarleikara hefur það hlutverk að styðja við íslenskt tónlistarlíf. Úthlutað er árlega úr sjóðnum og þetta er ein helsta tekjulindin, að sögn Úlfs. Að velgjörðarmenn sjóðsins hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu. Á þessu ári var hægt að veita þremur ungum og efnilegum tónlistarmönnum styrk, að upphæð ein milljón króna hverjum. „Eðli málsins samkvæmt viljum við safna sem mestu fé fyrir sjóðinn, svo sem flestir geti notið styrkjanna og að þeir skipti raunverulegu máli,“ segir Úlfur.

Ætlar alla leið að ári

Úlfur er að færa sig upp á skaftið í hlaupunum en hann hefur lofað því að hlaupa heilt maraþon á næsta ári nái áheitin nú að rjúfa 500 þúsund króna markið. „Það er því upplagt fyrir þá sem er illa við mig að heita á mig,“ segir hann sposkur. „Annars hefur hægst aðeins á áheitasöfnuninni að undanförnu, sem bendir til þess að fólk sé að hlífa mér frekar en hitt. Þannig að ætli ég noti ekki bara þetta tækifæri til að lýsa því yfir að ég muni hlaupa heilt maraþon að ári, óháð því hvað safnast núna.“

Úlfur kveðst hafa gert nokkrar atlögur að útihlaupum gegnum tíðina en „fannst þetta alltaf rosalega leiðinlegt“. Það var ekki fyrr en fyrir fjórum eða fimm árum að víðavangshlaup urðu hluti af hans lífsstíl. Þá small allt í einu eitthvað. „Ég hleyp mest fyrir andlegu hliðina og er orðinn háður þessu. Komist ég ekki út að hlaupa að minnsta kosti einu sinni í viku verð ég alveg ómögulegur.“

Born to Run bregst ekki

Úlfur treystir á tónlistina til að reka sig áfram. „Sem starfandi tónlistarmaður þá hef ég ekki mikinn tíma til að hlusta á annað en það sem ég er að fást við sjálfur. Þannig að það er kærkomið að geta sett allt frá þungarokki yfir í klassík á meðan ég er úti að hlaupa. Playlistinn minn er alltaf á góðu tempói og það er nauðsynlegt að vera með almennilegan bassa.“

– Geturðu nefnt mér dæmi um lag sem steinliggur?

„Born to Run með Bruce Springsteen. Það virkar alltaf mjög vel enda ofboðsleg orka í því lagi. Ég reyni alltaf að hlusta á það á lokasprettinum og helst þannig að saxófónsólóið kikki inn akkúrat þegar ég fer yfir endalínuna.“

Úlfur spilar sjálfur á saxófón og skorað hefur verið á hann að taka sjálfur umrætt sóló þegar hann hleypur í mark í Reykjavíkurmaraþoninu. „Fari ég yfir milljón króna markið er sjálfsagt að verða við því,“ segir hann. „Verði þá eitthvert loft eftir í lungunum!“

Kristján Eldjárn gítarleikari lést árið 2002.
Kristján Eldjárn gítarleikari lést árið 2002.


Það býr margt fallegt í sorginni

– Hvernig lifir maður með því að missa bróður sinn svona ungan?

„Það tók langan tíma að átta sig á fráfalli Eldjárns og ná utan um tilfinningar sínar. Hvað þetta væri ósanngjarnt og allt það. En það býr margt fallegt í sorginni líka. Núna, tuttugu árum síðar, er maður að komast á þann stað að hugsa meira um það hver hann var en hvað kom fyrir hann. Eldjárn hefur alltaf haft sterka nærveru gegnum minninguna og það færir okkur fjölskyldu hans líka styrk að geta haldið minningu hans á lofti, sérstaklega gegnum sjóðinn. Við höfum alla tíð talað mikið um hann og ég segi til dæmis mínum börnum frá honum nánast eins og að hann sé á lífi. Eldjárn var mikill leiðtogi í sér, ættrækinn og vinur vina sinna. Var góður að halda tengingu við þá sem honum þótti vænt um. Maður er alltaf með hann í huga og spyr sig í hinum ýmsu aðstæðum: Hvað hefði honum fundist? Ég tek það samtal reglulega við hann.“

Hann þagnar stutta stund.

„Það er auðvitað blessun í þessu líka og sjálfur er ég þakklátur fyrir hvert ár sem ég fæ og öll mín tækifæri í þessu lífi. Þau eru ekki sjálfgefin. Það er undarlegt til þess að hugsa að núna er ég orðinn miklu eldri en Eldjárn var þegar hann dó. Meira að segja Halldór, örverpið í fjölskyldunni, er orðinn eldri.“

Nánar er rætt við Úlf Eldjárn um hlaup, tónlist og fleira í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Heita má á hann hér: 

https://www.rmi.is/hlaupastyrkur/hlauparar/2960-ulfur-eldjarn

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert