Vonast til að geta fengið að starfa sem tannlæknir

Irína Sínenkó vonast til þess að geta fljótlega hafið störf …
Irína Sínenkó vonast til þess að geta fljótlega hafið störf sem tannlæknir. mbl.is/Hákon

Irína Sínenkó er 26 ára tannlæknir og starfar hjá JHG tannlækningum. „Ég kom hingað fyrir næstum því fjórum mánuðum frá Dnípró í Úkraínu, það var langt ferðalag. Það tók þrjá daga að fara frá Úkraínu til Póllands og þaðan tók tvo daga að fara til Íslands,“ segir Irína.

„Bróðir minn hefur búið á Íslandi í 10 ár og þess vegna kom ég hingað, þannig að ég er í raun búin að endurheimta hluta af fjölskyldunni minni. Ég er líka búin að eignast nýja úkraínska vini.“

Irína er menntaður tannlæknir en starfar nú sem aðstoðarmaður tannlækna. „Skjölin mín og leyfið eru í löggildingarferli, þannig að ég er að bíða eftir svari og vonast til þess að geta fljótlega farið að starfa sem tannlæknir.“

Fékk starfið um leið

Irína segir að það hafi tekið sig um einn mánuð að fá vinnu á Íslandi. „Ég var mjög heppin að fá þetta starf, þessi stofa er frábær og yfirmaðurinn minn og samstarfsfólk líka.

Ég sendi tölvupósta á nokkrar stofur og einn daginn fékk ég svar frá yfirmanninum mínum á þessari stofu sem sagðist geta hitt mig. Ég fékk starfið og byrjaði næsta dag.“

Irínu hefur tekist að koma sér vel fyrir og leigir nú stúdíóíbúð. Þá hefur hún þegar lokið tveggja mánaða námskeiði í íslensku og stefnir á framhaldsnámskeið í ágúst.

Ísland eins og önnur pláneta

„Fyrst þegar ég kom hingað var mjög mikill snjór, mikill vindur og oft rigning, ég var að búast við því að það væri frekar kalt hérna, þannig að ég var undirbúin fyrir það,“ segir hún og hlær.

„Ísland er frábært land, þetta er eiginlega eins og önnur pláneta. Fyrir tveimur vikum heimsótti ég Vík í Mýrdal með bróður mínum, ég skoðaði einnig Reynisfjöru og Skógarfoss. Akureyri verður svo næsti áfangastaður.“

Foreldrarnir enn í Úkraínu

Foreldrar Irínu eru enn stödd í Úkraínu, í borginni Kerson sem hefur verið hernumin.

„Það er erfitt fyrir þau að flýja og ég og bróðir minn erum að reyna að finna út hvernig við getum bjargað þeim. Ég vona að okkur muni takast það. Helstu áherslumálin núna eru foreldrar mínir og að eiga möguleika á að starfa hér sem tannlæknir.“

Irína Sínenkó er ein af sex úkraínskum flóttamönnum sem mbl.is ræddi við, sem hafa fengið atvinnu á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert