Mest 17 gráður hér en hitameti spáð í Danmörku

Íslendingar þurfa ekki að kvarta undan neinum ofsahita hérlendis.
Íslendingar þurfa ekki að kvarta undan neinum ofsahita hérlendis. mbl.is/Arnþór Birkisson

Veðurstofa Íslands spáir 8 til 17 stiga hita á landinu í dag. Staðan er allt önnur hjá nágrönnum okkar í Danmörku en þeir hafa fengið að finna fyrir hinni evrópsku hitabylgju og er þar hitameti spáð í dag.

Þar í landi fór hitinn víða yfir 30 gráður í gær en líklegt er að hann verði í það minnsta fimm gráðum hærri, að sögn veðurfræðings hjá ríkisútvarpi Danmerkur. Mesti hiti sem mælst hefur í Danmörku í júlímánuði er 35,3 gráður en hann hefur hæst farið í 36,4 gráður. Bæði metin féllu fyrir síðustu aldamót.

Norðlæg átt í dag, gola eða kaldi. Lítilsháttar væta á Norður- og Austurlandi, annars víða bjart veður en þó má búast við skúrum suðaustanlands. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast sunnan heiða,“ svo hljóða hugleiðingar veðurfræðings Veðurstofu Íslands fyrir daginn.

Fremur hæg suðlæg eða breytileg átt á morgun og súld eða dálítil rigning suðvestanlands. Skýjað með köflum í öðrum landshlutum og allvíða síðdegisskúrir. Hiti 9 til 17 stig, hlýjast í innsveitum á Norðausturlandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert