Taugastríð og störukeppni

Þórir og Elsa María Jakobsdóttir leikstjóri ásamt börnum sínum, enn …
Þórir og Elsa María Jakobsdóttir leikstjóri ásamt börnum sínum, enn nafnlausri fjögurra mánaða stúlku, Sögu Sigurveigu, bráðum þriggja ára, og Lúkasi, syni Þóris, sem er 18 ára. Ljósmynd/Hulda Sif Ásmundsdóttir

„Ég flutti til Danmerkur 2004 út af syni mínum og er þá með Zik Zak, íslenskt framleiðslufyrirtæki sem ég stofnaði 1995, og framleiðir kvikmyndir, hvort tveggja á íslensku og ensku. Ég er þá að pendla fram og til baka milli Íslands og Danmerkur og stofna svo danskt framleiðslufyrirtæki sem heitir Profile Pictures árið 2011.“

Þetta segir Þórir Snær Sigurjónsson, forstjóri kvikmyndadreifingarfyrirtækisins Scanbox Entertainment, í samtali við Morgunblaðið frá heimili sínu á Vesterbro í Kaupmannahöfn. Óhætt er að segja að Þórir hafi marga fjöruna sopið við framleiðslu og dreifingu afþreyingarefnis, sonur Sigurjóns Sighvatssonar kvikmyndaframleiðanda, sem mörgum Íslendingum er að góðu kunnur, og auk faðernisins heldur betur orðinn reynslunni ríkari af eigin störfum í bransanum.

„Í millitíðinni er ég svo alltaf að framleiða hitt og þetta, fór að framleiða fyrir Nicolas Winding Refn, gerði Only God Forgives og víkingamyndina Valhalla Rising með Mads Mikkelsen sem sagði reyndar ekki stakt orð í myndinni þar sem búið var að skera tunguna úr honum,“ heldur Þórir áfram. Leið hans inn í Scanbox hafi svo legið gegnum kaup þeirra feðga á hluta af fyrirtækinu árið 2004 og að lokum hafi þeir Sigurjón keypt Scanbox í heild sinni árið 2014 og Þórir þá sest í forstjórastólinn þar sem hann situr enn sem fastast.

50 myndir á ári

„Scanbox hefur fyrst og fremst verið í dreifingu á kvikmyndum á Norðurlöndum. Við veljum að dreifa stærri Hollywood-myndum eins og Taken-seríunni með Liam Neeson, The Gentleman eftir Guy Ritchie og Hatefull 8 eftir Quentin Tarantino í bland við minni og vandaðar norrænar og evrópskar myndir. Við vorum til dæmis með The Square eftir Ruben Östlund sem sigraði á Cannes fyrir nokkrum árum og árlega erum við með myndir sem eru í keppni í Cannes. Svo dreifum við líka dönskum „lókal“ myndum. Og ég dreifi eins mörgum íslenskum kvikmyndum á Norðurlöndum og ég kemst upp með,“ heldur Þórir áfram.

Starfsfólk Kaupmannahafnarskrifstofu Scanbox Entertainment, Þórir fyrir miðju. Hjá fyrirtækinu, sem …
Starfsfólk Kaupmannahafnarskrifstofu Scanbox Entertainment, Þórir fyrir miðju. Hjá fyrirtækinu, sem veltir um tveimur og hálfum milljarði íslenskra króna árlega, starfa um 20 manns og er Þórir að feta sig æ lengra í framleiðslu kvikmynda auk þess að vera þriðji stærsti dreifingaraðilinn í Skandinavíu. Ljósmynd/Aðsend

„Svo erum við með um það bil 50 myndir á ári sem við erum að setja á mismunandi „platform“ eða veitur, helmingurinn fer kannski í bíó og svo restin kannski á Viaplay, Netflix, TV2, DR eða NRK,“ segir Þórir frá og greinir því næst frá innkaupum þessa efnis víða um heim.

„Þetta eru fjórir markaðir á ári, Cannes, Berlín, Toronto og Los Angeles, þangað förum við til að kaupa inn myndir og þá erum við að berjast við aðra dreifingaraðila hér á Norðurlöndum, SF Studios, Nordisk Film og fleiri um kaup á bestu bitunum. Þegar við fórum á Cannes núna í maí vorum við til dæmis að kaupa myndir sem á eftir að gera og verða fyrst tilbúnar á næsta ári eða 2024,“ útskýrir Þórir, „þetta er alveg galinn bransi, við erum að kaupa myndir sem við höfum ekki séð og svona pródúsjónir geta vissulega farið hvernig sem er. Við erum að kaupa myndir á handritsstigi, líklegast er kominn leikstjóri, mögulega leikarar og helstu lykilaðilar og við vitum nokkurn veginn hvernig kostnaðarliðir líta út og við erum þá að kaupa réttindi til dreifingar í ákveðinn tíma. Svo fer þessi peningur frá okkur í sjálfa framleiðslu myndarinnar,“ heldur forstjórinn áfram.

Bitist um stærstu bitana

Eru kaup á dreifingarrétti kvikmynda á hátíðum þá bardagi upp á líf og dauða? „Já, þetta getur verið harður heimur, við byrjum kannski á að bjóða í tíu titla sem okkur líst á og þetta geta verið tilboð upp á eina og hálfa til tvær milljónir dollara og þá reynum við að sannfæra söluaðilann um að hann eigi að koma til okkar en ekki fara til samkeppnisaðila og svo koma símtöl til baka um að hinn kaupandinn sé búinn að hækka tilboðið og við verðum að hækka okkur svo þetta getur verið taugastríð og störukeppni langt fram á nætur,“ segir Þórir frá.

Hann segir slaginn um sjálfstæðar („independent“) bíómyndir hve blóðugastan. „Það eru myndir sem ég er að kaupa, ég er ekki að kaupa Warner Brothers-, Universal-, Disney- eða Marvel-myndir, þeir eru með sína samstarfsaðila úti um allan heim. Myndir eins og Batman koma aldrei á þessa markaði. Við erum hins vegar að bítast um þessa stærstu bita í sjálfstæðum kvikmyndum sem koma á kvikmyndamarkaðina, það er að segja myndir sem eru ekki framleiddar í þessum stóru amerísku stúdíóum,“ heldur Þórir áfram og játar að samkomulagið á Norðurlöndunum sé öllu skárra en á stærri mörkuðum.

Þórir er lítið að spá í þær myndir sem til …
Þórir er lítið að spá í þær myndir sem til sýningar eru á kvikmyndahátíðum enda eru það myndir sem hann keypti fyrir tveimur árum. Hann sækir markaðinn þar sem höndlað er með myndir sem enn eru á handritsstigi og verða jólamyndir á næsta og þarnæsta ári. Ljósmynd/Hulda Sif Ásmundsdóttir

Blaðamaður er forvitinn um hvernig kaupin gangi fyrir sig á eyrinni á kvikmyndahátíðum, mætir hann bara á staðinn með sínu fólki og gerir tilboð?

„Já, það er í rauninni þannig,“ svarar Þórir, „hátíðin sjálf og keppnin er bara brotabrot af því sem er að gerast. Ég er ekki mikið að pæla í sjálfri hátíðinni þegar ég fer á Cannes, við dreifingaraðilarnir erum þarna á þessum markaði sem snýst aðallega um myndir sem eru að koma í bíó eftir tólf til átján mánuði, það er aðalvinnan okkar sem sækjum Cannes. Rauða dregilinn og það dót hefur maður hreinlega ekki tíma fyrir, nema kannski örsjaldan, ég er löngu búinn að kaupa þær myndir sem eru í keppni og vona auðvitað bara að okkar myndum gangi sem best á hátíðinni, fái góða dóma, aðsókn og verðlaun því það hjálpar heilmikið við markaðssetningu,“ segir Þórir.

Ingvar E. fallin handboltahetja

Hversu stórt fyrirtæki skyldi Scanbox þá vera í mannskap, veltu og fjölda verkefna? „Við erum þriðja stærsta norræna dreifingarfyrirtækið á eftir Nordisk Film og SF Studios, við erum 20 manns, reyndar dreift um öll Norðurlönd, en flestir hér í höfuðstöðinni í Kaupmannahöfn, og við erum að dreifa 50 bíómyndum á ári, í bíó, stafrænar veitur eða sjónvarp og við erum að velta kannski tveimur, tveimur og hálfum milljarði í íslenskum krónum,“ svarar Þórir.

Hann játar að tekjur af kvikmyndahúsum hafi tekið dýfu í kórónuveirufaraldrinum. En á móti komi að tekjur af stafrænum veitum hafi aukist verulega á sama tíma. Auk þess sé áherslan hjá Scanbox nú á að auka eigin framleiðslu á öllum Norðurlöndunum. „Við gerðum norska mynd í faraldrinum sem kom út í febrúar og heitir Full Dekning sem var okkar eigin framleiðsla. Við erum að leggja meiri áherslu á að framleiða okkar efni sjálf og þannig tekst mér að tengja reynslu mína sem framleiðandi við þennan vettvang kvikmyndadreifingar.

Fram til þessa hefur Scanbox fyrst og fremst dreift myndum sem aðrir framleiða en nú vil ég að Scanbox geri hvort tveggja,“ segir Þórir og leynir því ekki að spennandi tímar séu í vændum hjá Scanbox. Fyrirtækið kemur þannig að fjölda íslenskra verkefna í gegnum Zik Zak kvikmyndir,  „tökur á sjónvarpsseríunni Aftureldingu eftir þá Hafstein Gunnar Sigurðsson og Halldór Halldórsson [Dóra DNA öðru nafni] fara í gang í haust.

Á Edduverðlaunahátíðinni 2018. Þar hlaut Elsa verðlaun fyrir stuttmynd ársins, …
Á Edduverðlaunahátíðinni 2018. Þar hlaut Elsa verðlaun fyrir stuttmynd ársins, Atelier, og Þórir fyrir kvikmyndina Hrúta. Ljósmynd/Aðsend


Þar leikur Ingvar E. Sigurðsson fallna handboltahetju sem snýr aftur heim á klakann og fær annan séns til að rétta úr kútnum þegar hann tekur við kvennaliði Aftureldingar. Við komum einnig að nýrri sjónvarpsseríu Benedikts Erlingssonar, Danska konan heitir hún, með Trine Dyrholm í aðalhlutverki. Bæði gríðarlega skemmtileg verkefni sem ég er afar spenntur fyrir.“ Auk þess frumsýnir Zik Zak í september kvikmyndina Svar við bréfi Helgu í leikstjórn Ásu Helgu Hjörleifsdóttur eftir samnefndri bók Bergsveins Birgissonar, ljóstrar Þórir upp. Með aðalhlutverk þar fara þau Hera Hilmarsdóttir, Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Aníta Bríem.

Þetta hlýtur þó að vera allólík vinna, framleiðsla myndefnis og dreifing þess, eða hvað?

„Jú, og það er kannski það sem við pabbi komum með inn í fyrirtækið, við erum fyrst og fremst framleiðendur,“ játar Þórir, „og það er mjög sérstakt að koma inn í þetta og vinna með fólki sem hefur alltaf verið hinum megin við borðið, þótt ég sé búinn að vera lengi í bransanum. Í gegnum dreifinguna hef ég lært að sjá stóru myndina í þessum kvikmyndaheimi en sem framleiðandi hef ég alltaf þurft að vera fullkomlega fókuseraður á kvikmyndina sem ég er að gera hverju sinni og djöfla henni áfram,“ bætir hann við.

Hefur ekkert upp á sig að hanga á setti

Skyldi hann vera mikið á vettvangi sjálfur þegar framleiðsla er annars vegar? „Nei, oftast ekki, sem framleiðandi felst hlutverk mitt helst í því að skapa rammann áður en tökur fara í gang og tryggja fjármögnun. Það er margra ára undirbúningur sem ég hef vonandi skilað vel af mér. Það hefur líklegast eitthvað farið úrskeiðis ef ég þarf að vera mikið á setti. Það tók mig reyndar nokkur ár að læra þetta, að það hefur ekkert upp á sig að ég hangi við mónitorinn og andi ofan í hálsmálið á leikstjóranum eða spásseri um settið í bíóúlpu og drekki kaffi úr „takeaway“-bolla. Í dag treysti ég mínum leikstjórum og öðrum lykilsamstarfsmönnum til að leysa sín verkefni.“

Þórir og Elsa á góðri stund í París, borg elskenda …
Þórir og Elsa á góðri stund í París, borg elskenda eins og sagt er. „Bíómyndin mun alltaf lifa, ég trúi því,“ segir Þórir, „hún verður kannski öðruvísi fram sett en áður.“ Ljósmynd/Aðsend

Blaðamann fýsir að vita hvernig kvikmyndamarkaðurinn sé í Skandinavíu miðað við mun stærri lönd og markaðssvæði. Hvað segir Þórir um það? „Hann er allgóður. Ég held nú til dæmis að dýrasti bíómiði í heimi sé í Noregi,“ svarar hann og hlær við. „En annars er þessi markaður bara stabíll, auðvitað eru breytingar á markaðnum núna út af streymisveitunum og Covid og þessu öllu. Maður veit ekkert hvort markaðurinn kemur til baka eins og hann var en fólk mun horfa á bíómyndir áfram og skandinavíski markaðurinn er nokkuð góður, hann er búinn að vera í miklu uppnámi núna. Ég veit ekki hvað þú ert með en ég er kominn með alla vega sex veitur heim til mín, ég er með Disney, Paramount, Netflix, Amazon, HBO og Viaplay, úrvalið er mjög mikið,“ segir Þórir.

Hann segir sjónvarpsþáttaraðir ef til vill hafa tekið ákveðinn hluta af markaðnum frá bíóinu. „En bíómyndin mun alltaf lifa, ég trúi því,“ segir Þórir af einurð, „hún verður kannski öðruvísi fram sett en áður,“ heldur hann áfram og segir forvitnilega sögu af réttindamálum í kvikmyndahúsum á Norðurlöndum.

„Þetta var þannig að sýningarrétturinn í bíó á Norðurlöndum var 90 dagar. Ég setti kannski mynd út og þótt hún gengi ekki neitt, enginn kæmi í bíó, og hún væri tekin úr sýningu eftir 15 daga þurfti ég samt að bíða í 75 daga þangað til ég mátti setja hana á einhverja veitu, þannig voru samningarnir bara. Breytingin á þessu er helsta byltingin núna, Warner Brothers settu Batman út og eftir 45 daga var hún bara komin á HBO Max en samt áfram sýnd í bíó,“ segir Þórir og kveður mikil vatnaskil.

Sterkari samnorræn tenging

Hann er þeirrar skoðunar að viðskiptavinurinn skuli ráða ferðinni, hann geti séð mynd í bíó en sé hún ekki sýnd í bíó eigi hann að geta séð hana heima hjá sér án tafar. „Ef mynd gengur ekki í bíó á hún að vera komin heim til þín mjög fljótt,“ segir Þórir og bætir því við að fólk flest sé auðvitað með mismargar streymisveitur í áskrift. „Veit kúnninn að mynd er til dæmis á Viaplay þótt hún sé enn í bíó?“ spyr hann og leggur ríka áherslu á þátt neytandans í markaðssetningunni.

Kvikmyndin Svartur á leik var byggð á samnefndri metsölubók og …
Kvikmyndin Svartur á leik var byggð á samnefndri metsölubók og glæpasögu Stefáns Mána Sigþórssonar sem oftsinnis hefur rabbað við mbl.is um líf sitt og störf og er einn þeirra íslensku glæpasagnahöfunda sem Íslendingar drekka í sig hver jól. Ljósmynd/Aðsend

Hvað með framtíðina hjá Scanbox, hvernig sér Þórir næstu misseri fyrir sér? „Við í framkvæmdastjórn Scanbox keyptum fyrirtækið í fyrra þannig að pabbi og aðrir fjárfestar eru farnir út. Það er önnur orka þegar eigendahópurinn er á gólfinu og með því á sér stað öðruvísi samtal og aðrar áherslur. Við ætlum að auka verulega umsvifin í framleiðslu hjá okkur. Á síðasta ári keypti ég út Skúla Malmquist, sem stofnaði Zik Zak með mér, og setti Zik Zak inn í grúppuna okkar hjá Scanbox og maður er kannski að reyna að búa til sterkari samnorræna tengingu,“ segir Þórir sem dreymir um að gera myndir sem njóti áhorfs í Svíþjóð, Noregi og Danmörku, milli þessara landa liggi ógreinileg mörk sem séu hefðbundnum landamærum torfærari.

„Mér finnst furðulegt hvað við erum lítið að horfa á hvert annað og skil ekki hvernig stendur á því. Ég bý hálftíma frá Malmö [í Svíþjóð] og ég veit ekkert hvað er að gerast þar,“ segir Þórir og hlær. „Norðurlöndin eru svo samofin að myndir og þættir ættu að geta ferðast mun auðveldar yfir þessi landamæri, sem auðvitað Brúin [dansk-sænsku spennuþættirnir Broen] gerði og var til fyrirmyndar, en mig langar að gera meira þarna,“ segir Þórir og kveðst einnig hafa stærri verkefni í huga, en alls ekki í Hollywood tekur hann fram grafalvarlegur.

Hangir í old boys-boltanum

Spurður út í áhugamál undir lokin nefnir Þórir bakaríið Brauð & Co. sem hann stofnaði árið 2016 með þeim Ágústi Einþórssyni, Birgi Bieltvedt og Elíasi Guðmundssyni. „Þar gat ég sameinað tvö áhugamál, bakkelsi og viðskipti,“ segir Þórir glettnislega en játar þó að hann fáist ekki beint við baksturinn sjálfur. „Nei nei nei, en ég smakka mikið og er með einhverjar meiningar,“ segir hann hlæjandi.

„Svo er það bara fótbolti og líkamsrækt. Ég hangi enn þá inni í einhverjum old boys-fótbolta, það er ótrúlegt hvað maður er slakur miðað við tímann sem maður hefur sett í þetta. En líkamsræktin er bara orðin eins og trúarbrögð, maður getur ekki lifað án hennar,“ segir Þórir og blaðamaður samsinnir af heilum hug enda sagt þjóðhagslega hagkvæmt að miðaldra fólk hreyfi sig.

Þórir og fjölskylda kunna ákaflega vel við sig í kóngsins …
Þórir og fjölskylda kunna ákaflega vel við sig í kóngsins Kaupmannahöfn enda skrifaði Nóbelsskáldið að heilinn á Íslendingum hefði löngum verið í þeirri ágætu borg. Upphaflega flutti Þórir þó þangað vegna Lúkasar sonar síns sem hann á með danskri móður. Ljósmynd/Hulda Sif Ásmundsdóttir

Sambýliskona Þóris er Elsa María Jakobsdóttir leikstjóri sem lokið hefur námi frá danska kvikmyndaskólanum. „Við vorum að gera mynd saman sem heitir Villibráð og kemur út um áramótin. Tyrfingur Tyrfingsson leikskáld skrifaði handritið með Elsu. Hér er á ferðinni mesta stjörnukast sem sést hefur í íslenskri bíómynd. Við erum að tala um Nínu Dögg [Filippusdóttur],  Hilmi Snæ [Guðnason], Gísla Örn [Garðarsson], Björn Hlyn [Haraldsson], Anítu Briem, Þuríði Blæ [Jóhannsdóttur] og Hilmar Guðjónsson. Ég legg ekki meira á ykkur!“ segir Þórir kíminn.

Eðlilega segir hann mikið rætt um kvikmyndir á heimilinu, auðvitað séu þær helsta áhugamálið þrátt fyrir ellibolta og líkamsrækt. Þá hefur Þórir skilað þremur börnum í þennan heim. „Ég er víst svokallað forneldri og á tvö lítil börn, Sögu Sigurveigu sem verður þriggja ára í september og svo eina tæplega fjögurra mánaða ónefnda stúlku. Svo á ég einn hálfdanskan, Lúkas, sem varð 18 ára í maí. Allt þetta brölt hérna í Danmörku er nú til komið út af honum. Óvænt og skemmtileg stefna sem líf mitt og annarra hefur tekið,“ segir Þórir Snær Sigurjónsson, forstjóri Scanbox Entertainment, að lokum, en kveðst þó ekkert á leiðinni heim frá Danmörku. Ekki í bili alltént.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert