Ekki hægt að ganga út frá því að fólk segi satt

„Ég er fordómafullur gagnvart því að það eigi stundum bara …
„Ég er fordómafullur gagnvart því að það eigi stundum bara að trúa öllu sem fólk segir eins og nýju neti,“ segir Helgi Magnús. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, segir að með umdeildri færslu sinni á Facebook hafi hann viljað vekja máls á því að rannsaka þurfi mál hælisleitenda sem segjast vera samkynhneigðir eins og annarra. Ekki sé hægt að ganga út frá því að fólk segi satt.

Helgi tekur fram að hann hafi ekki ætlað sér að setja fram niðrandi ummæli um samkynhneigða og að hann sé ekki fordómafullur gagnvart samkynhneigðum, heldur styðji þvert á móti fólk til þess að lifa lífi sínu „eins og það vill.“

„Ég viðurkenni að ég hefði getað haft færsluna lengri og útskýrt mál mitt betur. Sumir hafa tilhneigingu til að misskilja þetta og vilja misskilja þetta, eru alltaf að leita að einhverju vondu,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.   

Helgi deildi í gær viðtali við lögmann hælisleitanda, sem gagnrýndi það sem hann telur óeðlilega mikla áherslu á að hælisleitendur færi sönnur á kynhneigð sína.

„Auðvitað ljúga þeir. Flest­ir hæl­is­leit­end­ur koma í von um meiri pen­ing og betra líf. Hver lýg­ur sér ekki til bjarg­ar? Þar fyr­ir utan er ein­hver skort­ur á homm­um á Íslandi?“ skrifaði Helgi með færslunni.

Vinnur í kerfi þar sem ekki er alltaf sagt satt og rétt frá

Í samtali við mbl.is segir hann að spurningin um skort á samkynhneigðum karlmönnum hafi átt að vera grín. Með færslunni hafi hann einfaldlega viljað benda á að hælisleitendur gefi ekki alltaf upp réttar upplýsingar til þess að auka líkur á að þeir fái hæli.

„Ég tek fram að ég er ekki að fordæma það að menn ljúgi sér til bjargar, ég held að við myndum öll gera það. Ef við teldum okkur geta komist í skjól frá einhverjum aðstæðum, hvort sem þær eru fjárhagslegar eða af einhverjum öðrum toga, þá myndum við kannski öll hagræða sannleikanum til þess,“ segir Helgi og bætir því við að hann hafi ekki verið að segja að maðurinn sem var til umfjöllunar í fréttinni hafi logið til um kynhneigð sína en að stundum geri fólk það og því þurfi alltaf að rannsaka mál hælisleitenda sem segjast vera hinsegin, rétt eins og mál annarra sem segjast sæta ofsóknum af einhverjum ástæðum.

„Yfirvöld þurfa að rannsaka þetta og leiða sannleikann í ljós,“ segir Helgi og bætir því við að það sé flókið að rannsaka það hvort fólk segi satt til um kynhneigð sína.

„Auðvitað skil ég vel að fólk vilji alltaf geta trúað öllu. Ég vinn í kerfi þar sem ekki er alltaf sagt rétt frá, svo maður kannski þekkir mannlegt eðli í því.“

Gengur út frá því að fólk gæti verið að segja ósatt

Helgi segir að mikilvægt sé að þeir sem séu í mestri þörf á hæli fái það og að fólki sé ekki hleypt fram fyrir röðina, einfaldlega vegna þess að það segist vera samkynhneigt, án þess að það hafi verið sannað.

„Við verðum að gera ráð fyrir því að menn ljúgi sér til bjargar,“ segir Helgi.

Gengur þú þá út frá því að fólk í þessari stöðu sé að ljúga?

„Nei, en þá gengur maður út frá því að það geti verið að ljúga til þess að sannreyna að það sé sannleikurinn, en ekki taka orð fólks trúanleg.“

Skilurðu að þessi Facebook-færsla hafi komið illa við fólk?

„Það er rosalegur æsingur í kringum allt, það má aldrei ræða neitt og það er alltaf gert ráð fyrir því versta hjá öllum,“ segir Helgi um það.

„Það er fullt af öðru fólki sem er ofsótt fyrir ýmislegt annað“

Hann veltir því upp hvort það að fólk sé samkynhneigt eigi endilega að vera ástæða til þess að fólk fái að vera hér á landi, óháð því hversu slæmar aðstæður hinsegin fólks séu í heimalandi þess.

„Bakgrunnurinn á því er þessi: Er það orðið stóra málið í því hvort þú færð hæli á Íslandi, það hvort þú sért samkynhneigður? Auðvitað veit ég að aðstæður eru lífshættulegar sums staðar. Annars staðar er fólk litið hornauga og ég hef fulla andstyggð á öllu þessu en þá er spurning hvenær þetta á að leiða til forréttinda hvað varðar hælisleit,“ segir Helgi og bætir við: „Það er fullt af öðru fólki sem er ofsótt fyrir ýmislegt annað.“

Formaður Samtakanna ’78 sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að færsla Helga renndi stoðum undir grun samtakanna um að fordómar gegn hinsegin fólki væru til staðar í réttarkerfinu. Spurður um það segir Helgi:

„Ég á vini sem eru samkynhneigðir. Mér þykir vænt um fólk og mér  finnst að fólk eigi að lifa sínu lífi eins og það vill og á þann hátt sem það kýs og elska þann sem það vill elska. Ef þetta eru fordómar hjá mér finnst mér svolítið langt gengið að kalla hlutina fordóma,“ segir Helgi.

„Ef við eigum bara að trúa fólki rannsóknarlaust, gagnrýnislaust, því annars séum við fordómafull, þá erum við á svolítið skrýtnum stað.“

Fordómafullur gagnvart því að fólk trúi öllu

„Ákær­end­um og öll­um öðrum op­in­ber­um starfs­mönn­um ber að rækja starf sitt af alúð og sam­visku­semi í hví­vetna og forðast að hafa nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er hon­um til van­v­irðu eða varpað get­ur rýrð á það starf eða starfs­grein sem fólk vinn­ur við,“ sagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is í morgun um málið og vísaði til laga um skyld­ur op­in­berra starfs­manna.

Er þessi Facebook-færsla í takt við siðareglur og lög um starf vararíkissaksóknara?

„Ef þú lest færsluna sæmilega hlutlaust þá er ekkert í henni sem blammerar samkynhneigðra. Ég er ekki að lýsa neinni afstöðu til samkynhneigðra,“ segir Helgi sem viðurkennir að hann hefði mátt útskýra mál sitt betur í færslunni og játar á sig eina tegund af fordómum:  

„Ég er fordómafullur gagnvart því að það eigi stundum bara að trúa öllu sem fólk segir eins og nýju neti.“

Mbl.is hefur ekki náð í Sigríði J. Friðjónsdóttur, ríkissaksóknara, vegna málsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert