Launahækkun forstjóra OR „út úr öllu korti“

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks Fólksins.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks Fólksins. Ljósmynd/Aðsend

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, gagnrýndi launahækkun forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur (OR) harðlega á borgarráðsfundi í gær. 

Ákveðið var á stjórnarfundi OR nýlega að laun for­stjóra skyldu hækka um 5,5%, aft­ur­virkt til 1. janú­ar. Kolbrún lagði fram svohljóðandi bókun á fundi borgarráðs í gær:

„Flokkur fólksins hefur áður bókað um laun forstjóra. Hér er lögð fram tillaga starfskjaranefndar, dags. 13. júní 2022, um að laun forstjóra hækki um 5,5% frá 1. janúar 2022 að telja. Athyglisvert er að í sömu fundargerð sé fjallað um hækkun launa forstjóra afturvirkt og bætur vegna ólögmætra uppsagna.“

Undanþegnir ábyrgð?

Áfram heldur Kolbrún í bókun sinni og spyr hvort að forstjórar þurfi ekki að axla ábyrgð í núverandi efnahagsástandi: 

„[Flokki] fólksins finnst þessi laun vera út úr öllu korti. Allir vita hvaða ástand ríkir nú í samfélaginu. Verðbólga hefur ekki verið eins há síðan fyrir hrun. Þurfa ekki forstjórar að axla einhverja ábyrgð, eða eru þeir undanþegnir ábyrgð sem öðrum er gert að axla? Það er ekkert lögmál að forstjórar eigi að vera á ofurlaunum.

Rökin fyrir svo háum launum forstjóra eru oft á þá leið að þeir standi sig svo vel í starfi. Þetta eru undarleg rök, eins og það sé ekki beinlínis sjálfgefið að forstjóri standi sig vel. Forstjórar orkufyrirtækja eru sárafáir en þeir eru í höfrungahlaupi hver við annan og hækka á víxl í launum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert