Verðbólgan verði á þessu stigi meira og minna út árið

Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Ljósmynd/Aðsend

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir verðbólgu hér á landi, líkt og í löndum í kring um okkur, farna að rísa enn hraðar en væntingar voru um fyrr á árinu en í dag mældist verðbólgan 9,9 prósent og 7,5 prósent án húsnæðis.

„Við verðum væntanlega með verðbólgu á þessu stigi meira og minna út árið,“ segir Jón Bjarki í samtali við mbl.is. „Það er alls ekki hægt að útiloka að hún fari í tveggja stafa tölu fyrr en síðar.“

Um eða eftir áramót

Segir Jón Bjarki að sem áður séu þrjár lykilbreytur sem skipta máli til að koma verðbólgunni aftur í eðlilegt horf:

Að verðlag erlendis verði stöðugra eða lækki, krónan styrkist og hægari hækkun á íbúðaverði sökum aðgerða seðlabankans í vöxtum, herðingu lánþegaskilyrða og aukningu í framboði. Teikn séu á lofti um að árangur sé að byrja að nást í öllu þrennu.

„Þegar lengra líður á veturinn þá gerum við ráð fyrir að verðbólgan fari að hjaðna og vonandi allhratt en úr þessu þá erum við frekar svartsýn um að það verði ekki fyrr en um eða eftir áramót.“

Mikilvægt er að íbúðaverð hækki hægar og framboðið aukist.
Mikilvægt er að íbúðaverð hækki hægar og framboðið aukist. mbl.is/Kristinn Magnússon

Flugliðurinn bæði hækkun í júní og júlí

Jón Bjarki segir hækkunina meðal annars skýrast af því að hún hafi verið meiri í júní en talið var í fyrstu.

„Það kemur í ljós að Hagstofan misreiknaði flugliðinn, sem er stærsti einstaki liðurinn sem vegur til hækkunar.“ Sá liður sé í raun samanlögð hækkun júní- og júlímánaðar.

„Við sjáum auðvitað að það er lítið lát á hækkun markaðsverðs íbúðahúsnæðis. Það er ennþá auðvitað stærsti einstaki verðbólguvaldurinn,“ bætir hann við og bendir á að það að verðbólga án húsnæðis sé 7,5 prósent sýni fram á að verðbólguþrýstingurinn sé ansi almennur.

„Hvað innflutta liði varðar er verðlag erlendis búið að vera að hækka hratt. Þegar kemur að innlendri þjónustu og kannski að hluta til að erlendu vöruverði líka þá er innlendur kostnaðarþrýstingur sömuleiðis talsverður.“ Laun séu að hækka nokkuð ríflega og allur rekstrarkostnaður í einhverjum mæli að fara út í verðlagið.

Matvælaverð hækkaði minna

Þó séu ljósir punktar. „Matvælaverð var að hækka minna en við væntum. Hugsanlega erum við þar að komast fyrir vind í bili. Við sjáum að aðföng til matvælaframleiðslu eins og kornvörur, matarolía og annað slíkt hefur lækkað nokkuð að nýju.

Það verður vonandi til þess að við förum að sjá meiri stöðuleika í matvælavísitölu, sem er auðvitað mikilvægt af því að það er auðvitað eitthvað sem enginn kemst hjá því að neyta.“

„Matvælaverð var að hækka minna en við væntum. Hugsanlega erum …
„Matvælaverð var að hækka minna en við væntum. Hugsanlega erum við þar að komast fyrir vind í bili.“ mbl.is/Jónas Erlendsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert