Andinn yfir göngunni var orkuþrunginn

mbl.is/Hákon

Druslugangan var gengin í dag í Reykjavík, í fyrsta sinn í þrjú ár. Gengið var frá Hallgrímskirkju kl. 14:00 og stefnan tekin á Austurvöll þar sem ræðuhaldarar tóku til máls og sögðu frá sinni reynslu af íslenskum valdakerfum. Að loknum ræðuhöldum tóku við tónleikar þar sem Reykjavíkurdætur, Gugusar og Kristín Sesselja tróðu upp.

Sara Mansour er einn af skipuleggjendum Druslugöngunnar í ár sem að sögn hennar gekk vel.

mbl.is/Hákon

Mikill kraftur og mikil samkennd

„Gangan fékk mjög vel og mæting vonum framar. Það hefur eflaust ekki skemmt fyrir hvað veðrið var gott og að sólin lét sjá sig. Að öðru leyti gekk allt vel. Það var bara frábært að sjá svona mörg andlit tilbúin að sýna samstöðu í verki,“ segir Sara í samtali við mbl.is.

mbl.is/Hákon

Aðspurð segir hún að andinn yfir göngunni hafi verið orkuþrunginn.

„Alveg frá því að við lögðum af stað frá Hallgrímskirkju og þar til Reykjavíkurdætur lokuðu dagskránni var mikill kraftur og mikil samkennd með þeim sem tóku til máls og sögðu frá sinni reynslu. Vonandi var þetta orkugefandi fyrir fólk sem að þurfti á því að halda.“

Vandinn oft víðtækari og gegnsýrðari en einstök atvik

Mikilvægi göngunnar er alltaf gríðarlegt, segir Sara. Svo lengi sem að kynferðisbrot eru vandamál í samfélaginu þá er þörf fyrir Druslugöngunnar. Með göngunni ár voru valdaójafnvægi og kerfislæg mismunun í brennidepli.

„Markmiðið með því að hafa þetta þema er að gera gönguna aðgengilegri og þá aðstoð og viðurkenningu sem að við viljum veita. Við viljum veita viðurkenningu á því að kynferðisofbeldi sé til staðar og trúa þolendum, að sú þjónusta sem við veitum er fyrir öll sem á henni þurfa að halda.

Sérstaklega í ljósi þess að þeir sem að kannski eiga almennt erfiðara með aðgengi að göngunni eru yfirleitt þau sem að þurfa mest á henni að halda, og þurfa mest á samstöðu almennings að halda.

Það er bara ótrúlega mikilvægt að gangan og starfsemi göngunnar endurspegli þann vanda sem er til staðar í samhengi við kynferðisofbeldi. Sá vandi er oft mun víðtækari og gegnsýrðari en einstök atvik.“

mbl.is/Hákon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert