Ekki eytt ævinni í vitleysu

Jónas Ingimundarson píanóleikari hefur haft ánægju af því að líta …
Jónas Ingimundarson píanóleikari hefur haft ánægju af því að líta um öxl. Mbl./s/Arnþór Birkisson

„Ertu ekki með Spotify?“ spurði Kristinn Sigmundsson stórvin sinn Jónasar Ingimundarson ekki alls fyrir löngu. Píanóleikarinn kom af fjöllum en fór að kynna sér málið. Þá kom í ljós að nokkuð af upptökum með Jónasi var þar án þess að hann hefði hugmynd um það. „Þá datt mér í hug að ég gæti skoðað málið og valið efni sjálfur.“

Vinir Jónasar, með Guðrúnu Pétursdóttur í broddi fylkingar, fóru síðan að leggja að honum að gera sinn flutning gegnum árin aðgengilegan á veitunni og nú má þar finna margar klukkustundir af píanóeinleik Jónasar, áður útgefið efni og óútgefið.

„Ég fór að skoða málið og áttaði mig á því að töluvert er til, þar á meðal margt sem aldrei hefur verið gefið út, upptökur héðan og þaðan," segir Jónas. „Ferill minn spannaði heil fimmtíu ár, frá 1967 til 2017 og fjölmargir tónleikar voru teknir upp. Þegar mest var spilaði ég á 50 til 70 tónleikum á ári og kom fram út um allt land, bókstaflega. Núna er ég sestur í helgan stein og þá fer maður óhjákvæmilega að líta um öxl og gefa þessum gömlu upptökum gaum. Það er virkilega ánægjulegt að eitthvað sé til, ekkert síður en fjölskyldualbúmið. Þökk sé tæknimönnum og tónmeisturum RÚV, Halldóri Víkingssyni hjá Fermata og Sveini Kjartanssyni hjá Stúdíó Sýrlandi og fleirum. Sveinn hefur séð um fráganginn fyrir Spotify.“

Jónas vann mikið með Kristni Sigmundssyni söngvara.
Jónas vann mikið með Kristni Sigmundssyni söngvara. Jim Smart


Lætur sig berast með straumnum

Jónas hefur haft yndi af verkefninu, að kafa í sína eigin fortíð. „Ég læt mig bara berast með straumnum og leyfi þessu að fljóta inn í framtíðina. Ég er ekki að reisa mér minnisvarða en þetta er hluti af okkar sögu; ég get ekki svarið af mér þátttöku í íslensku tónlistarlífi í fimmtíu ár. Til þessa alls var upphaflega stofnað til að reyna að gleðja fólk en til þess að gera það þarf þetta efni að heyrast; hvort sem ég er þess verður eður ei. Ég hef alla tíð reynt að leggja mitt á vogarskálarnar og opinbera fyrir áheyrendum og gefa þeim hlutdeild í mínu ævistarfi.“

Á Spotify má nú heyra Jónas leika verk eftir flesta helstu meistara tónlistarsögunnar, Chopin, Händel, Bach, Schubert, Mozart, Lully, Brahms og svona mætti lengi telja. Við Íslendingar eigum líka okkar fulltrúa, eins og Leif Þórarinsson og Atla Heimi Sveinsson.

Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú), Bergþór Pálsson og Jónas Ingimundarson í essinu …
Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú), Bergþór Pálsson og Jónas Ingimundarson í essinu sínu. Ómar Óskarsson


Ekkert er fullkomið

Efinn er aldrei langt undan hjá listamanninum. „Það er ekkert fullkomið í heiminum. Manni finnst maður aldrei nógu góður og vill alltaf gera betur. Ég hef alltaf verið óöruggur um eigið ágæti – og er enn. Það getur verið hörð glíma. Ég hef til dæmis aldrei kunnað við að titla mig píanóleikara í símaskránni. Veit ekki hvort ég er þess verður.“

– Ertu alveg hættur að spila?

„Já, röddin er eins og spegill á mína orku. Hún fer þverrandi. Ég heyri enn of vel til að hafa gaman af því sem ég spila. Þegar maður er farinn að spila á röngum nótum er rétt að láta staðar numið en ég viðurkenni að það er mikið frá manni tekið þegar maður getur ekki einu sinni lengur spilað lítið lag fyrir konuna sína. Það er ákveðið tóm í mér enda hefur þetta verið mitt tjáningarform alla ævina og svo að segja það eina sem ég hef lifað fyrir. Þess vegna hefur verið gott að teygja sig í þessar gömlu upptökur til að sannfæra mig um að ég hafi ekki eytt ævinni í einhverja vitleysu.“

Nánar er rætt við Jónas í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert