Lausasala melatóníns sé ekki mikið áhyggjuefni

Melatónín er víða skilgreint sem fæðubótarefni en flokkað sem lyf …
Melatónín er víða skilgreint sem fæðubótarefni en flokkað sem lyf hérlendis.

Lyfið melatónín getur haft aukaverkanir, þær eru þó oftast vægar en ofskömmtun á lyfinu er ólíkleg. Að mati lyfjafræðings er lyfið nokkuð öruggt og væri ekki tilefni til að hafa miklar áhyggjur skyldi það fara í lausasölu.

Lyfjastofnun skoðar nú hvort tilefni sé til að endurskoða það að melatónín sé skilgreint sem lyf, en Mat­væla­stofn­un (MAST) óskaði eftir áliti stofnunarinnar í vikunni.

„Með tilliti til ofskömmtunar er melatónín nokkuð öruggt efni en áhyggjurnar eru að fólk noti það óhóflega lengi. Ef fólk er til dæmis líka að nota svefnlyf þá getur það aukið áhrif þeirra,“ segir Vilborg Halldórsdóttir, lyfsöluleyfishafi í apóteki og varaformaður Lyfjafræðingafélags Íslands, í samtali við mbl.is.

Hún segir helstu aukaverkanir melatónín vera höfuðverk, þreytu, svima og ógleði. Þá valdi það einnig syfju og ætti ekki að keyra eftir töku lyfsins. Sömuleiðis eigi ekki að nota það á meðgöngu né við brjóstagjöf vegna skorts á þekkingu á öryggi.

Ekki sömu gæðakröfur

Vilborg segir að með tilliti til vörugæða þá séu lyfin alltaf öruggar, þar sem hægt sé að ganga út frá því að styrkur vörunnar sé sá sem kveðið er á um.

„Það sem þarf að hafa í huga með melatónín sem fæðubótarefni er að það lýtur ekki sömu gæðakröfum og lyf. Þegar þú ert með fæðubótarefni er útilokað að fullyrða að það sé sannarlega sá styrkur melatónín sem gefinn er upp. Það er í raun engin rannsókn né gögn á bak við það.“

Spurð hvort langtímanotkun lyfsins sé hættuleg segir Vilborg lítil gögn til um langtímanotkun þess og því sé ekki hægt að ráðleggja hana nema undir reglulegu eftirliti læknis. Segir hún jafnframt að alltaf ætti ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing áður en melatónín sé notað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert