Stökk ofan í Brúará til að bjarga syni sínum

Frá vettvangi við Brúará í gær.
Frá vettvangi við Brúará í gær. mbl.is/Haraldur

Maðurinn sem lést í gær í Brúará fór í ána til að bjarga syni sínum, sem hafði fallið ofan í ána. Lögreglan á Suðurlandi staðfestir þetta í samtali við mbl.is í dag.

Eins og greint hefur verið frá lést maður í gær eftir að hann fór í Brúará og barst niður eftir ánni.

Þyrla Landhelgisgæslunnar fann manninn látinn um 400 til 500 metra frá staðnum þar sem hann stökk ofan í.

Náði að ýta syni sínum að bakkanum

Maðurinn mun hafa verið við Brúará með syni sínum að njóta náttúrunnar, þegar sonur hans féll ofan í hana fyrir slysni. Stökk þá faðirinn ofan í ána og náði að ýta syni sínum að bakkanum, þar sem aðrir ferðamenn gripu í soninn og drógu hann á land. Hann slapp án meiðsla.

Tók þá straumurinn í föðurinn sem náði ekki að koma sér sjálfur að bakkanum og bar hann niður eftir ánni þar sem hann lést, en að sögn lögreglunnar mun krufning leiða í ljós hvort maðurinn hafi drukknað eða látist af öðrum orsökum.

Í tilkynningu á vef lögreglu segir að maðurinn hafi verið kanadískur ríkisborgari, búsettur í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert