Þrýstingur eykst enn í öflugustu eldstöð landsins

Eldgosið í Holuhrauni varð árið 2014.
Eldgosið í Holuhrauni varð árið 2014. mbl.is/RAX

„Þetta er sumsé aðalmerkið um að það sé að aukast þrýstingur undir Bárðarbungu,“ segir Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus, um jarðskjálftana sem riðu yfir undir Bárðarbungu í gær.

Fyrsti kröftugi skjálftinn í fyrradag varð klukkan 13.23 og mældist 4,4 að stærð. Klukkan 13.45 varð annar sterkari og mældist sá 4,9 að stærð. Eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið sem voru minni.

Síðasti skjálfti af þessari stærð varð í janúar 2020 og þar áður í janúar 2018, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.

Hefur verið landris síðan gos lauk

Aðspurður segir Páll að samkvæmt mælingum Veðurstofunnar og vísindamanna á Jarðvísindastofnun Háskólans sé kvikuþrýstingur að aukast undir eldstöðina aftur.

Hér að neðan má sjá graf af vef Veðurstofu Íslands. Efst á grafinu má sjá fjölda jarðskjálfta undir Bárðarbungu frá árinu 2015, fyrir miðju má sjá styrkleika þeirra og neðst á grafinu má sjá uppsafnaða orkuútlausn þessara skjálfta.

Grafið sýnir að meira jafnvægi er komið á eldstöðvarkerfið síðan …
Grafið sýnir að meira jafnvægi er komið á eldstöðvarkerfið síðan 2019. Kort/Veðurstofa Íslands

„Þrýstingurinn féll gríðarlega mikið í Holuhraunsgosinu. Það fór mikið magn af kviku norður í Holuhraun undan Bárðarbungu, en askjan seig um 65 metra í Bárðarbungu. Fljótlega eftir að gosið hætti þá fór kvika að safnast fyrir aftur undir Bárðarbungu og þar hefur verið landris alveg síðan,“ segir Páll.

„Þessi skjálftavirkni er afleiðing af því, það er að segja vísbending um það,“ bætir hann við og bendir á að talið sé að askjan hafi verið að rísa um metra á ári.

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emerítus.
Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emerítus. mbl.is/Sigurður Bogi

Páll segir að ekki sé vitað hversu mikið askjan þurfi að rísa svo að kvikan brjótist aftur út úr þessi hólfi. Hann segir aftur á móti að jarðskjálftarnir í gær séu aðalmerkið um að það sé að aukast þrýstingur undir Bárðarbungu.

„Þetta hefur verið viðvarandi alveg síðan haustið 2015. Þá byrjaði þessi aukning í skjálftavirkninni. Síðustu árin hefur heldur dregið úr skjálftavirkninni, þó að litlu leyti. Það má búast við skjálftum á bilinu 4 til 5 að stærð á hverju ári.“

Þjóðin vandist rólegri eldvirkni

Að sögn Páls er kvikusöfnun enn í gangi og því fylgir landris og skjálftavirkni. Nákvæmlega hvenær það leiðir til goss, og hvort það gjósi yfirhöfuð, er óvíst. 

„Þetta er þó merki um það að virknin i Bárðarbungu er í gangi ennþá, og því full ástæða til að hafa auga með þessari öflugustu eldstöð landsins.“

Horft yfir Bárðarbungu.
Horft yfir Bárðarbungu. mbl.is/RAX

Páll segir að Bárðarbunga sé ein af nokkrum eldstöðum sem þurfi að hafa auga með um þessar mundir. Spurður hvort Ísland sé að fara inn í eldgosatímabil segir hann að spurningin sé hver hin eðlilega gostíðni sé hér á landi.

„Ísland er náttúrulega heitur reitur með mikilli eldvirkni. Um miðbik 20. aldar var óvenju rólegt, þannig að þjóðin vandist frekar rólegri eldvirkni. Svo hresstist þetta allt saman við upp úr 1960 með 26 gosum á 61 ári.“

Eldgos í Geldingadölum í fyrra.
Eldgos í Geldingadölum í fyrra. mbl.is/Einar Falur

Meira jafnvægi komið á eldstöðvakerfið

Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að grafið sýni að meira jafnvægi sé komið á eldstöðvakerfið þar sem fjöldi jarðskjálfta er farinn að fletjast út.  

„Það er klárt að kvika er búin að safnast fyrir þarna undir á ný, hvort hún sé jafn mikil og fyrir síðasta gos eða ekki er óvíst.“

Grafið sýni að meira jafnvægi sé komið á eldstöðvarkerfið síðan 2019. Síðan þá hafi dregið úr jarðskjálftavirkninni en þó verði stærri skjálftar inni á milli. Uppsafnaða orkuútlausn þessara sömu skjálfta má sjá á neðsta grafinu og þeim mun stærri sem skjálftinn er þeim mun meiri orka losnar út frá kerfinu.

Eldgosið í Holuhrauni.
Eldgosið í Holuhrauni. mbl.is/RAX

„Kerfið er í raun að leitast eftir jafnvægi en það getur tekið mörg ár fyrir eldstöðvakerfið að ná jafnvægi eftir gos eins og Holuhraunsgosið. Sjá má að ennþá er spenna í kerfinu sem losnar út í jarðskjálftum á svæðinu,“ segir Lovísa.

„Þegar kerfið er komið í jafnvægi þá getur það haldist þannig mjög lengi eða það verður eldgos. Það er of snemmt að segja til um það hvort að það megi búast við gosi í Bárðarbungu að svo stöddu.“

Kort/Veðurstofa Íslands
Eldgos hófst í Grímsvötnum í Vatnajökli árið 2013 í kjölfar …
Eldgos hófst í Grímsvötnum í Vatnajökli árið 2013 í kjölfar mikillar skjálftahrinu. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert