Brotthvarf í framhaldsskólum fer minnkandi

mbl.is/Eggert

Brotthvarf af framhaldsskólastigi hefur ekki mælst minna og brautskráningarhlutfall ekki hærra í tölum Hagstofunnar þar sem um nærri 62% þeirra tæplega 4.500 nýnema sem hófu nám árið 2016 útskrifuðust árið 2020.

Um 18% voru enn í námi og 19,9% hættu námi. Brotthvarf á framhaldsskólastigi hefur því farið minnkandi frá árinu 2003 þegar brotthvarf mældist 29,6%.

Brotthvarf meira á landsbyggðinni

Af nýnemum ársins 2016 höfðu tæp 25% karla hætt námi án þess að hafa útskrifast árið 2020 og 15% kvenna. Brotthvarf var meira meðal nemenda í starfsnámi en í bóknámi og hafði þriðji hver nýnemi í starfsnámi árið 2016 hætt námi án þess að útskrifast fjórum árum síðar.

Þá var brotthvarf meira í skólum á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þó hættu færri nýnemar í starfsnámi í skólum á landsbyggðinni án þess að útskrifast en nýnemar í starfsnámi á höfuðborgarsvæðinu.

Brotthvarf meira meðal innflytjenda

Rúmlega 46% innflytjenda sem hófu nám í dagskóla á framhaldsskólastigi haustið 2016 höfðu hætt námi án þess að útskrifast fjórum árum seinna.

Það er mun meira en á meðal nýnema með íslenskan bakgrunn, en brotthvarf þeirra var tæp 18% og rúm 13% á meðal nemenda fæddra erlendis en með íslenskan bakgrunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert