Engar breytingar á upplýsingagjöf um helgina

Grímur Hergeirsson lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.
Grímur Hergeirsson lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.

Lögreglan í Vestmannaeyjum mun upplýsa um helstu verkefni sem hægt er að upplýsa um, daglega, yfir verslunarmannahelgina. Upplýsingagjöf verður því með hefðbundnum hætti, að sögn Gríms Hergeirssonar lögreglustjóra í Vestmannaeyjum. 

Spurður hvernig lögreglan hyggist haga upplýsingagjöf vegna kynferðisbrota á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í ár svarar Grímur á þá leið að lögreglan muni haga upplýsingagjöf með sama hætti og endranær.

„Sama hvaða dagur það er þá upplýsir lögreglan bara um helstu verkefni sem hægt er að upplýsa um, við þurfum svo alltaf að huga að rannsóknarhagsmunum og við gerum það bara núna eins og við gerum það alla daga.“

Hann segir að upplýsingaskylda lögreglu geri ekki þá kröfu að lögreglan greini rakleitt frá því ef fram eru lagðar kærur um alvarleg brot. Samantekt um verkefni hverrar nætur munu þó birtast á vefsíðu lögreglunnar alla morgna. 

Vel mönnuð og undirbúin

Þjóðhátíð leggst vel í lögregluna, að sögn Gríms. „Við erum vel undibúin, mönnuð og skipulögð svo það er ekki ástæða til annars en að vera bjartsýn.“

Frá fimmtudegi til mánudags standa vaktina á fjórða tug lögregluþjóna. Þannig verða um það bil tuttugu lögregluþjónar á vakt í einu, en vanalega eru þeir ekki nema þrír til fjórir. 

Embættið hefur fengið til liðs við sig um tuttugu lögregluþjóna frá öðrum embættum, enda mikill fjöldi gesta í Herjólfsdal. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert