Heppinn með veður í minningunni

Séra Hjálmar fyrir utan heimili sitt í vikunni.
Séra Hjálmar fyrir utan heimili sitt í vikunni. mbl.is/Arnþór Birkisson

Séra Hjálmar Jónsson lét af störfum sem prestur í Dómkirkjunni fyrir fimm árum. Hann hefur þó ekki alveg sagt skilið við hempuna.

Jafnvel þótt vágestur hafi bankað upp á fyrir um hálfu ári, sem kallaði á talsverða glímu með hjálp fagfólks, þá er Séra Hjálmar Jónsson aftur farinn að þjóna fólki og sinna áhugamálum. 

„Góð heilsa er ekki sjálfgefin. Ég fékk áfall í desemberbyrjun. Þetta gerðist hér heima að kvöldi til og þá var ég allt í einu slegin út. Um nóttina var farið með mig á spítala og þá var ég hálf lamaður hægra megin. Auk þess hafði ég misst jafnvægisskynið og var allur ruglaður. Ég gat ekki kyngt því hálsinn var lamaður og röddin farin. 

Svo fór að ég var á Borgarspítalanum í rúman hálfan mánuð og fór þá yfir á Grensás. Þar var ég fram að jólum. Eftir áramót fór ég þangað í æfingar á morgnana í einn og hálfan mánuð. Með góðri hjálp tókst mér að ná heilsu á ný. Þar hitti ég mikið öndvegisfólk sem var hjálplegt og notaði sína hæfileika til að koma mér og öðrum til heilsu. 

Ég dáist einnig að sjúklingunum sem ég kynntist þarna og hvernig fólk heldur reisn sinni og virðingu þrátt fyrir að það missi heilsuna með einhverjum hætti. Fólk sem ef til vill hefur misst málið eða misst útlim. Þarna kynntist maður fólki sem var ljóst að það myndi ekki ná fullri heilsu á ný. Sjálfur fékk ég fljótlega upplýsingar um að veikindin myndu ganga til baka hjá mér og enn meira dáðist ég þá að fólkinu sem hafði fengið upplýsingar um að það yrði aldrei samt aftur. Þarna er þessi eiginlega lífsbarátta. Þarna eru hetjur sem lifa virðingaverðu lífi í hjólastól eða með hækjur, vitandi að lífið sem var, er farið. Mér finnst þetta merkilegt og í þessu ferli kynntist ég mögnuðu fólki. Þegar maður finnur samstöðu með hinum sjúklingunum þá auðveldar það manni hlutskiptið að takast á við eigin veikindi. Um leið samgleðst maður öðrum sjúklingum þegar þeir ná einhverjum áfanga í sinni baráttu,“ segir Hjálmar ákveðið og hann segist vera svolítið undrandi á umræðunni um heilbrigðismálin. 

„Mér finnst umræðan svo ýkt. Miðað við það sem maður heyrir í fjölmiðlum þá virðist áherslan í umræðunni vera á vanlíðan heilbrigðisstarfsfólks frekar en vanlíðan og hetjulega baráttu sjúklinga til að ná heilsu í samstarfi við heilbrigðisstarfsfólk. Mér finnst samspil sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks vera áhugavert. Fæstir þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem ég var í samskiptum við kveinkuðu sér undan sínu hlutskipti en af fjölmiðlum má stundum skilja að starfsfólkið sé aðframkomið. Þeir sem vinna mikið verða þreyttir, sama hvert starfið er.“ 

Annað raddbandið lamað

Hjartagalli greindist í Hjálmari í þetta skiptið en hann hafði áður fengið blóðtappa þótt ekki hafi þá verið um jafn alvarlegt tilfelli að ræða. 

„Þetta er blóðtappi í heilastofni sem ekki var hægt að losa en líkaminn finnur leiðir til að ná jafnvæginu aftur. Ég bý við hjartagalla sem greindist núna og gerðar hafa verið ráðstafanir til að ég fái ekki þriðja tappann. Ég hafði áður fengið blóðtappa í vinstri fótinn en það gerðist fyrir átta eða níu árum. Mér skilst að 20% fólks sé með þennan galla, þar sem tappi getur skotist úr bláæðakerfinu í gegnum bilaða hjartaloku og út í slagæðarnar. Þetta er algengt og maður er laskaður eftir þetta þótt maður taki betur eftir því eftir á.“

Stutt er í kímnigáfuna hjá Hjálmari.
Stutt er í kímnigáfuna hjá Hjálmari. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hjálmar hefur náð sér að mestu leyti en röddin er þó frábrugðin þeirri sem áður var og hljómar svolítið eins og hann hafi sungið lengi fram eftir í hópi Skagfirðinga. 

„Hægra raddbandið er lamað og það heyrist á röddinni. Vinstra raddbandið er í góðu lagi og það bjargar því að ég get talað. En röddin er nú ekki eins hljómfögur og hún var,“ segir Hjálmar og skellir upp úr. Hann hugsar til séra Bjarna Jónssonar og bætir við: „Það er svo sem ekkert nýtt að dómkirkjuprestur sé rámur.“ Sá sem þetta skrifar hefur heyrt sögur af Séra Bjarna, enda var hann jú þjóðþekktur maður, en spyr Hjálmar hvort röddin muni verða betri með tímanum? 

„Hún á að lagast og er alltaf að lagast. Læknar gefa mér góðar vonir um að röddin verði miklu betri og nánast eins og hún var. Auðvitað er dagamunur á þessu en ég finn að hún er að verða betri.“

Jákvæðni er lífsafstaða

Í tiltölulega stuttu spjalli okkar sést vel að Hjálmar býr yfir ríkri kímnigáfu. Sem prestur drjúgan hluta starfsævinnar hefur Hjálmar verið inni á gafli hjá sóknarbörnum á bæði hamingju- og sorgarstundum. Hjálmar jánkar því þegar blaðamaður færir í tal hvort ekki sé gott fyrir okkur öll að halda í húmorinn miðað við allt sem gengur á þessu lífi. Hjálmar bætir því við að neikvæðni sé ekki heppilegt afl og hefur sjálfur reynt að temja sér jákvæðni í flestum aðstæðum. 

„Þegar ég lá á spítala kom upp í hugann að ég hef margt til að þakka fyrir. Stundum er sagt við mann: Þið prestarnir talið nú bara um það góða í útfararræðunum. Spurningin er bara, hvort er betra? Hvort viltu muna sólskinsbletti í heiði eða dimm ský? Þegar einhver er látinn þá kallar maður á góðu minningarnar. Sigurbjörn biskup svaraði þessari athugasemd, um yfirlýst og fögur eftirmæli svona: „Þetta er síðasta tækifærið til þess að láta hinn látna njóta sannmælis í þessum heimi.“

Þegar maður lítur til baka þá er ég heppinn með veður í minningunni. Ég man miklu betur það sem var gott og það finnst mér eiginlega vera hugarafstaða og lífsafstaða.“

Viðtalið við Séra Hjálmar í heild sinni er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert