Klárlega fæddur í röngu landi

Arjun er frá Indlandi en er sestur að á Íslandi …
Arjun er frá Indlandi en er sestur að á Íslandi og vill hvergi annars staðar vera. Hann opnaði á dögunum veitingastaðinn Mama Rama. mbl.is/Ásdís

Arjun tekur á móti blaðamanni á Mama Rama, nýjum indverskum stað sem finna má í sama húsi og barinn Sirkus í Lækjargötu. Móðir Arjuns, Rama, er afbragðskokkur og sendir syni sínum reglulega sérblönduð krydd frá Indlandi. Þar að auki notar hann uppskriftir hennar. Því var ekki úr vegi að nefna staðinn eftir henni. Arjun nýtur sín við eldamennsku. Þó kviknaði ástríðan fyrir matreiðslu ekki fyrr en á Íslandi, en Arjun er með meistaragráðu í hönnun. En hvað í ósköpunum dró ungan mann frá Norður-Indlandi alla leið til Íslands? Og af hverju er hönnuðurinn orðinn kokkur? Um þetta og fleira ræddum við einn gráan eftirmiðdag í vikunni yfir ilmandi indverskum réttum.

Eldamennska er sköpun

„Ég er frá Lucknow, sem er borg í norðurhluta Indlands, eða reyndar býr fjölskyldan í þorpi fyrir utan borgina. Þegar ég var lítill áttum við fíl fyrir gæludýr,“ segir hann og hlær.

„Fjölskylda mín er dæmigerð indversk fjölskylda sem heldur fast í hefðir. Matargerðin þarna er indversk undir persneskum áhrifum en Lucknow er þekkt fyrir bragðgóðan mat,“ segir hann og bætir við að faðir sinn hafi ræktað meðal annars mangó, sykurreyr og kartöflur.

„Í minni fjölskyldu eru svona þrjú til fjögur hundruð manns,“ segir hann og skellihlær.

„Pabbi og eldri bróðir hans giftust systrum þannig að við systkinabörnin erum eins og systkini og það búa margir saman í stóru húsi. Á hverjum degi er eldað fyrir kannski tuttugu manns. Mamma og frænka mín eru í eldhúsinu saman og elda fimm máltíðir á dag. Mamma vaknar klukkan sex og byrjar að undirbúa morgunmatinn og svo hinar máltíðirnar koll af kolli,“ segir hann. Uppistaðan í matnum er grænmeti, þótt kjöt sé á borðum um það bil einu sinni í viku.

„Við borðum þá aðallega kjúkling og geitakjöt. Ég borða allt svo sem, en mamma er mjög ströng og borðar bara grænmeti,“ segir Arjun og segist hafa lært mikið af mömmu sinni.

„Ég fræddist um krydd af frænda mínum. Hann er með alveg svakalega þróaða bragðlauka og veit alveg upp á hár hvað vantar í hina ýmsu rétti. Ég áttaði mig á því síðar hvað ég hafði lært mikið af honum,“ segir Arjun, en Ísland var fyrsta landið sem hann ferðaðist til á ævinni.

Butter chicken er sá réttur sem er í uppáhaldi hjá …
Butter chicken er sá réttur sem er í uppáhaldi hjá Arjun. Uppskriftina má finna í Sunnudagsblaði Moggans.

„Ég var tískuhönnuður í Indlandi en líkaði það ekkert sérstaklega vel. Ég fór svo að kenna í tvö ár en fann ekki hamingjuna í því heldur. Þá fannst mér að ég þyrfti að henda mér í djúpu laugina og skoða hvað væri úti í hinum stóra heimi. Þannig að ég kom hingað árið 2016 og fór í meistaranám í hönnun í LHÍ með áherslu á umhverfismál og sjálfbærni og útskrifaðist 2018. Þá hófst mín matarvegferð. Ég fór þá að kunna að meta indverska matargerð, sem ég hafði áður tekið sem sjálfsögðum hlut. Ég fór að skilja matargerðina betur. Fjölskyldan mín hafði rekið veitingastað og bæði mamma og frændi minn höfðu kennt mér margt í mínum uppvexti.“

Hvað finnst fjölskyldunni um það að þú sért fluttur til Íslands?

„Þeim finnst ég klikkaður,“ segir hann og hlær.

„Þau sögðu við mig: „Ef þér finnst svona gaman að elda, af hverju varstu þá að læra hönnun?“ En fyrir mér er eldamennska sköpun; ég er að hanna þó nú sé ég að vinna í mat. Ég nálgast mat frá öðru sjónarhorni og allur matur á sér einhverja sögu. Ég rannsaka oft uppruna rétta og sögu þeirra,“ segir hann.

Fékk sjokk við komuna

Nú hafðir þú aldrei farið til útlanda, þá 27 ára gamall. Hvað dró þig til Íslands af öllum stöðum?

Arjun hlær dátt.

„Ég hafði aldrei hitt Íslending. Það voru nokkrir hlutir sem spiluðu inn í. Vinir mínir sumir voru að fara í nám til „týpískra“ landa eins og til Frakklands, Ítalíu eða Englands. Mig langaði eitthvert annað. Ég hafði séð myndina The Secret Life of Walter Mitty og fannst hún áhugaverð,“ segir hann. Þess má geta að sú mynd gerist að miklum hluta til á Íslandi.

„Svo sá ég að hér var listaháskóli og hafði samband við Godd, Guðmund Magnússon. Ég sendi honum möppuna mína og komst inn. Ég var mjög spenntur að koma hingað og hugsaði að ég myndi í versta falli geta átt hér skemmtilegan tíma. Ég kom hingað með þær væntingar að hér væri svo fámennt, öfugt við Indland, þar sem er margmenni, mengun og mikil óreiða. Ég gisti fyrstu nóttina í Keflavík og fór þaðan til Reykjavíkur en þá var einmitt Menningarnótt! Ég var í sjokki, því það var svo margt fólk alls staðar og ég fór strax að efast um að það hefði verið rétt ákvörðun að koma hingað. En svo var mér sagt að það væri bara Menningarnótt og næsta dag var allt rólegt og fámennt,“ segir hann og hlær.

Síðan þennan örlagaríka dag hefur Arjun búið hér, en hann er nú giftur konu frá Úkraínu og saman eiga þau lítinn tíu mánaða gamlan dreng.

„Mér hefur alltaf liðið eins og hér sé heimili mitt. Hér hefur mér liðið vel.“

Hvað með veðrið, það er ansi ólíkt því sem þú átt að venjast?

„Heima í Indlandi getur hitinn farið í 48 gráður! Ég er svo feginn að vera hér. Ég var klárlega fæddur í röngu landi. Mér finnst veðrið hér svo fínt, jafnvel á veturna truflar kuldinn mig ekkert.“

Hefur þú lært íslensku?

„Já smávegis. Ég kann að segja: Rómverskur riddari réðst inn í Rómarborg, rændi og ruplaði. Hvað eru mörg r í því?“ segir hann á íslensku og skellir upp úr.

Mama Rama fyrir mömmu

„Butter chicken“ er minn sérréttur; ég hef rannsakað þann rétt ofan í kjölinn og á minningar um hann allt frá barnæsku. Ég vann í þrjú ár í Indican og þróaði mínar uppskriftir en svo var kominn tími til að kveðja. Ég tók smá hlé, varð faðir og sinnti fjölskyldunni og svo opnaði ég þennan stað fyrir þremur mánuðum. Mama Rama varð þá til, staður tileinkaður mömmu,“ segir hann. 

Vegan korma er dásamlega bragðgott og fæst á Mama Rama.
Vegan korma er dásamlega bragðgott og fæst á Mama Rama.

„Hingað getur fólk komið og borðað eða tekið matinn með sér. Á Sirkus getur fólk líka setið áfram. Oft eru hér listamenn að spila tónlist og einnig er hægt að kasta pílum eða spila „pool“. Nú er bara opið hjá mér á kvöldin en ég stefni á að hafa líka opið í hádeginu. Ég elska að elda og þess vegna er ég hér á hverjum degi að reyna að skapa það besta sem hægt er að fá. Hver einasti réttur er eldaður alveg frá grunni,“ segir hann og nefnir að hann hyggst jafnvel selja indversku kryddin í framtíðinni.

Arjun gefur blaðamanni að smakka á sínum sérrétti og segist sjálfur aldrei fá leið á honum.
„Ég borða „Butter chicken“ næstum því á hverjum degi!“

Nánar má lesa um Arjun og indverska matargerð í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en þar gefur Arjun einnig uppskriftir sem vert er að spreyta sig á. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »