Óttuðust um líf sitt er skjálftinn reið yfir

Veitingastaðurinn Bryggjann í Grindavík kom illa út úr skjálftanum.
Veitingastaðurinn Bryggjann í Grindavík kom illa út úr skjálftanum. Ljósmynd/Garðar Skarphéðinsson

Mikið tjón varð á veitingahúsinu Bryggjunni í Grindavík er öflugur skjálfti reið yfir rétt fyrir klukkan sex í dag. Linda Sveinbjörnsdóttir, starfsmaður á Bryggjunni, segir í samtali við mbl.is að hún hafi óttast um líf sitt er skjálftinn reið yfir. 

Er blaðamaður heyrði í Lindu rétt fyrir klukkan átta sagði hún að starfsfólk sem hafi verið á vakt sé enn í sjokki. 

„Þetta var alveg skelfilegt,“ segir hún en hópur ferðamanna hafi verið á staðnum er jarðskjálftinn varð. Strax í kjölfarið var staðnum lokað og segir Linda að ferðamennirnir hafi sýnt því mikinn skilning. 

Lausamunir fóru á flug.
Lausamunir fóru á flug. Ljósmynd/Garðar Skarphéðinsson

Sement hrundi úr loftinu

Mikið af lausamunum brotnuðu og þá komu sprungur í steypu hússins. „Það hrundi hérna sement úr loftinu. Þetta er sterkt og gott hús en það tók á sig ansi stórt högg,“ segir Linda og bætir við að enginn hafi slasast.

Glerbrot var víða um gólf.
Glerbrot var víða um gólf. Ljósmynd/Garðar Skarphéðinsson

„Ég og samstarfskona mín héldum að þessu væri bara að ljúka og að þetta væri okkar síðasta,“ segir hún og bætir við að þær hafi staðið í faðmlögum á meðan skjálftinn reið yfir. „Við gátum ekki hreyft okkur.“

Enn á eftir að meta tjón á staðnum og segir Linda óvíst hvort Bryggjan opni á morgun. 

Ekki hægt að búa ferðamennina undir þetta

Garðar Skarphéðinsson leiðsögumaður var á þriðju hæð veitingastaðarins með hópi ferðamanna er jarðskjálftinn reið yfir. Hann segir að um „helvíti góðan“ skjálfta hafi verið að ræða. 

„Það danglaði allt hressilega þarna inni,“ segir Garðar og bætir við að glerbrot hafi verið um allt gólf. 

Hvernig brugðust ferðamennirnir við?

„Þeir urðu skelkaðir. Sem betur fer, þegar við lögðum af stað í morgun, þá sagði ég þeim frá því að við værum að fara á svæði sem að væri mjög hætt við því að kæmi einhverjir skjálftar. Ég bjó þau þó engan veginn undir þennan skjálfta,“ segir hann og bætir við að ferðamönnum hefði brugðið mikið. Nokkrar konur hafi verið gráti næst.

Kælar opnuðust.
Kælar opnuðust. Ljósmynd/Garðar Skarphéðinsson
mbl.is