Munu ekki ná að úthýsa hinsegin fólki

„Ég veit ekki hvað þeim gengur til. Hvað í alvörunni vilja þau að gerist? Að við flytjum á einhverja eyju úti á Breiðafirði? Maður veit ekki alveg hvert lokamarkmiðið er vegna þess að hvaða jaðarhópur er þá næstur?“

Þessar spurningar setur Bjarni Snæbjörnsson leikari fram í nýjasta þætti Dagmála og vísar til þess bakslags sem orðið hefur í baráttu hinsegin fólks hérlendis rétt eins og víða erlendis að undanförnu. 

Eitt af skýrum dæmum um slíkt er að tvívegis hefur meiðandi orðræða gegn hinsegin fólki verið rituð á stéttina við Grafarvogskirkju sem máluð er litum hinsegin baráttunnar, regnboganum sjálfum. 

Eru ekkert á förum

Lag úr söngleik Bjarna, Góðan daginn faggi, er lag Hinsegin daga í ár en Hinsegin dagar hefjast á morgun.

Það er lagið „Næs“. Um er að ræða kröftuga ballöðu og segir Bjarni að þarna sé á ferðinni ákall um jafnrétti.

„Við viljum allt, við viljum það strax og við viljum meira,“ segir Bjarni og vitnar áfram í texta lagsins: „Mikið verður það næs er við öll megum fá að tilheyra.“

Hann segir að lagið taki líka utan um sár hinsegin fólks.

„Við erum með bros og við brosum í gegnum tárin líka. Við erum enn hér eftir öll þessi ár. Það er búið að reyna að gera alls konar. Við erum ekkert að fara að flytja á eyju á Breiðafirði, það er bara þannig.“

Áskrifendur Morgunblaðsins geta nálgast viðtalið við Bjarna í fullri lengd hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert