„Það er mjög stutt í eldgos“

Ármann Höskuldsson rannsóknarprófessor og eldfjallafræðingur.
Ármann Höskuldsson rannsóknarprófessor og eldfjallafræðingur. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Við erum komin inn í eldgosatímabil, allt Reykjanesið er byrjað að losa um spennu. Hvort eldgos byrji í Fagradalsfjalli, Eldvörpum eða í Krýsuvík er ómögulegt að segja en það er alveg klárt að það verður eldgos á Reykjanesi,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur í samtali við mbl.is. 

Næstu 100 til 200 árin verður órói á Reykjanesinu, að sögn Ármanns, og hann spáir því að á þeim tíma verði um 10 til 20 eldgos með reglulegu millibili. 

Skjálftarnir séu merki þess að við séum að koma út úr 700 til 800 tímabili þar sem spennan hefur verið að safnast upp, en nú sé komið að því að losa þurfi spennuna. 

„Þá fer jörðin í þennan fasa, tíðir skjálftar og regluleg eldgos verða viðloðandi næstu 100 til 200 árin, þótt það kunni að draga aðeins úr þegar mesta spennan hefur losnað.“

Mikilvægt að hefja undirbúning

Ármann segist ekki gera greinarmun á því hvort eldgos verði í dag eða í september. „Fyrir mér er þetta jafnlangur tími, það sem við vitum er að það er mjög stutt í eldgos. Gögnin eru ekki farin að benda eindregið til þess að það verði á næstu dögum, en það getur breyst á svipstundu.“

Í ljósi þessa telur Ármann mikilvægt að viðbragðsaðilar og yfirvöld setjist niður ei seinna en núna og byrji að ákveða hvernig verði brugðist við. Það sé ekki einskorðað við fólksflutninga, heldur þurfi einnig að grípa til aðgerða til þess að tryggja innviði. 

Aðalatriðið að ekkert komi á óvart

„Aðalatriðið er að vera viðbúin svo það komi ekkert á óvart þegar kallið kemur. Menn gangi ákveðið í þau verk sem þarf. Við Íslendingar eigum það til að bregðast við um leið og eitthvað gerist en taka okkur svo hlé um leið og allt róast.“

Þá tekur hann undir það sem Þorvaldur Þórðarson sagði í viðtali við Rúv í gær, að það sé óhjákvæmilegt að fara að huga að því að tryggja varaflugvöll fyrir umferð til landsins og frá.

mbl.is