Fluglitakóði úr grænu í gult

Það hefur fundist vel fyrir jarðskjálftunum á Keflavíkurflugvelli.
Það hefur fundist vel fyrir jarðskjálftunum á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fluglitakóði fyrir íslenska flugstjórnarsvæðið og þar af leiðandi Keflavíkurflugvöll var færður úr grænu yfir í gult á laugardaginn vegna jarðskjálftahrinunnar sem hefur gengið yfir á Reykjanesskaganum undanfarna daga. Þetta staðfestir Grettir Gautason staðgengill upplýsingafulltrúa Isavia.

„Það þýðir í rauninni að það sé meiri vöktun með svæðinu, við erum að fylgjast nánar með,“ segir hann og bendir á að þetta hafi verið gert í samræmi við breytingu Veðurstofu Íslands á viðvörunarkorti þeirra fyrir eldfjöll. 

Litakóðinn fyrir svæðið er núna gulur inni á vef Veðurstofunnar en það þýðir að eldstöðin sýnir merki um virkni, umfram venjulegt ástand. 

Engin áhrif á flugumferð enn sem komið er

Hann segir að þau hjá Isavia hafi fundið vel fyrir skjálftunum síðustu daga enda sé annað ekki hægt vegna staðsetningar flugvallarins. Hann tekur þó fram að jarðskjálftarnir hingað til hafi hvorki haft nein áhrif á rekstur eða flugumferð á Keflavíkurflugvelli né í íslenska flugstjórnarsvæðinu.

„Við fylgjumst með hvernig málin þróast. Allt gengur annars sinn vanagang.“

Aðspurður tekur hann fram að hann og aðrir hjá Isavia hafi ekki orðið varir við það að ferðamenn á flugvellinum hafi orðið óöruggir á vellinum við að finna fyrir skjálftum. Hann segir þá í lokin að ef eitthvað skyldi gerast fari áætlanir í gang.

mbl.is