Merki um kviku nálægt yfirborði

Skjáskot úr vefmyndavélinni sem sýnir reykinn.
Skjáskot úr vefmyndavélinni sem sýnir reykinn.

„Þetta virðist hafa byrjað seinni partinn í gær, svona ef maður horfir aftur í tímann á öðrum vefmyndavélum. Það virðist vera einhver leið fyrir gas til að komast upp á þessum stað.“

Þetta segir Hulda Rós Helgadóttir, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands, í samtali við mbl.is um reykinn sem sést nú á gosstöðvun­um í Fagradalsfjalli á vefmyndavélum mbl.is.

Á kortinu er rauðmerkt gróflega áætluð staðsetning reyksins.
Á kortinu er rauðmerkt gróflega áætluð staðsetning reyksins.

Merki um kviku nálægt yfirborði

Er þetta merki um að það sé alveg að koma eldgos og kvika sé núna á leið upp?

„Þetta er ekki beint merki um það en þetta er merki um að hún sé nokkuð nálægt yfirborði. Við sjáum ekki merki um að það sé hafið gos og við erum ekki að sjá þannig smáskjálftavirkni að það virðist vera einhver kvika á hreyfingu. En þetta er eitt af merkjunum um að það sé kvika nálægt yfirborði,“ segir Hulda.

Hún segir að svæðið verði vel vaktað en eins og mbl.is hefur greint frá eru verulegar líkur taldar á eldgosi á næstu dögum eða vikum. Kvikan er tal­in flæða inn tvö­falt hraðar en fyr­ir eld­gosið í mars á síðasta ári.

Útsend­ing­una frá vefmyndavélum mbl.is má sjá hér að neðan.

mbl.is