Söfnuðu einni og hálfri milljón með bollakökusölu

Anna Sóley Cabrera með bollakökurnar.
Anna Sóley Cabrera með bollakökurnar. mbl.is/ Þorgeir Baldursson

Grasrótarsamtökin Mömmur og möffins héldu sína árlegu kökusölu í Lystigarðinum á Akureyri um helgina. Alls söfnuðust 1,5 milljónir króna og verður fjárhæðin nýtt til þess að kaupa þráðlausan hjartsláttarmæli fyrir fæðingardeildina á Sjúkrahúsinu á Akureyri. 

Er þetta tólfta árið sem Mömmur og möffins standa fyrir þessari fjáröflun, en nýr hópur er tekinn við keflinu. Anna Sóley Cabrera fer þar fremst í fylkingu. 

„Auður Skúladóttir byrjaði á þessu fyrir tólf árum og hélt utan um þetta lengi. Svo tók Valdís Anna Jónsdóttir við í nokkur ár. Þær gátu svo ekki lengur séð um þetta og það var farið að leita að nýjum umsjónaraðilum, því það vill enginn sjá þetta detta upp fyrir. Bæjarbúar eru farnir að þekkja þetta vel. Við tókum okkur því saman nokkrar konur og létum verða af þessu.“

Uppskriftirnar að bollakökunum hafa fylgt samtökunum frá upphafi.
Uppskriftirnar að bollakökunum hafa fylgt samtökunum frá upphafi. mbl.is/ Þorgeir Baldursson

Mikil ánægja með fæðingardeildina

Fæðingardeildin hefur orðið fyrir valinu vegna þess að hún er sá staður sem tengir mömmur saman, að sögn Önnu Sóleyjar. „Við tengjum allar við fæðingardeildina því við komum þangað til að eignast börnin okkar. Þar verðum við að mömmum.“

Þar að auki bendir Anna Sóley á að það ríki almennt mikil ánægja með það starf sem unnið sé á fæðingardeild sjúkrahússins á Akureyri. „Það vilja allir leggja henni lið.“

Það var margt um manninn í lystigarðinum vegna kökusölunnar.
Það var margt um manninn í lystigarðinum vegna kökusölunnar. mbl.is/ Þorgeir Baldursson

Seldust upp á klukkustund

Anna Sóley segir söluna hafa lukkast vel. Múffurnar seldust upp á rúmum klukkutíma, en  þær höfðu séð fyrir sér að standa vaktina í tvær klukkustundir hið minnsta.

Þegar Anna tók að sér að vera umsjónarmaður viðburðarins fór hún rakleitt í að auglýsa eftir sjálfboðaliðum. Þegar hópurinn var reiðubúinn var allt púður lagt í að skipuleggja viðburðinn, útvega hráefni og loks að baka múffurnar. 

„Við höfðum bara viku til að klára þetta og allar múffurnar voru bakaðar á föstudagskvöldinu. Við vorum að langt fram á kvöld svo næst sjáum við fyrir okkur að dreifa bakstrinum á fleiri daga.“

Alla bollakökurnar voru bakaðar á einni kvöldstund.
Alla bollakökurnar voru bakaðar á einni kvöldstund. mbl.is/ Þorgeir Baldursson

Á sér stað í hjörtum margra

Anna Sóley segir hópinn hafa áhuga á að fara lengra með kökusöluna og halda svona kökusölur oft á ári. 

„Þetta er eitthvað sem fólk hefur gaman að og á sér stað í hjörtum margra. Við söfnum alltaf fyrir fæðingardeildina á Akureyri.“

Uppskriftirnar að múffunum hafa fylgt samtökunum frá upphafi. „Við höfum aðallega verið með vanillu og súkkulaði múffur. Við skreytum þær svo með smjörkremi og í ár fengum við jarðaber og ætiblóm til þess að fegra þær aðeins, það var skemmtileg nýjung. Við erum allraf að leita að leiðum til að breyta og bæta.“

Fyrirtæki á Akureyri hafa lagt kökusölunni lið með því að útvega hráefni, samtökunum að kostnaðarlausu. Þar að auki hafa bakarí bakað kökur til þess að leggja á veisluborðið.

„Þetta er eitthvað sem fólk hefur gaman að og á …
„Þetta er eitthvað sem fólk hefur gaman að og á sér stað í hjörtum margra," segir Anna Sóley. mbl.is/ Þorgeir Baldursson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert