Mikið flæði fólks var um Landeyjahöfn í gær, enda fjöldi fólks á leið heim af Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Sem áður var lögreglan á Suðurlandi í höfninni með mikið og strangt eftirlit en hver einasti ökumaður á leið þaðan út var látinn blása í áfengismæli.
Talið er að um fimmtán þúsund manns hafi verið í Herjólfsdal þegar mest lét og því má búast við að að minnsta kosti tíu til ellefu þúsund gestir af meginlandinu hafi haldið til síns heima í gær.
„Við höfðum afskipti af öllum sem fóru út af svæðinu og létum blása í áfengismæli. Það voru nokkrir sem reyndust yfir refsimörkum. Ætli það hafi ekki verið um tíu ökumenn,“ segir Bjarki Oddsson, starfandi aðalvarðstjóri í dag og í gær.
Þá voru milli 20 og 30 sem mældust og var gert að hætta akstri, en voru undir refsimörkum.
Bjarki segir lögregluna á Suðurlandi ekki hafa tölu á því hversu margir ökumenn fóru um höfnina í gær en ljóst er að það voru að minnsta kosti nokkur þúsund.
Einn til tveir lögreglumenn voru við höfnina sem buðu fólki upp á að blása til að tryggja að enginn myndi leggja í hann undir áhrifum.
„Það er bara þjónusta sem við viljum bjóða upp á,“ segir hann og bætir við að langflestir ökumenn hafi blásið áður en lagt var af stað.
Spurður að því hvernig flæðið gekk segir Bjarki að á heildina litið hafi gengið vel. Um sjö lögregluþjónar hafi verið að störfum við að láta fólk blása.
„Það koma svona toppar, þegar báturinn kemur. Þá kemur bylgja. En við vorum bara nokkuð vel mönnuð og ég held að við höfum náð að sinna þessu alveg vel.
Það er náttúrulega mest umfang þarna um morguninn þegar ferjan er að byrja að koma með fullan bát,“ segir hann en fyrsti báturinn kom stuttu fyrir þrjú aðfaranótt mánudags og sá næsti um klukkan fimm.
„Svo þynnist þetta náttúrulega út yfir daginn, þannig séð. Þá er fólk líka búið að hvíla sig, fá sér að borða og hreyfa sig og er bara í betra standi eins og við þekkjum.“
Hvort það hafi myndast teppur segist hann ekki hafa orðið mikið var við slíkt í miklum mæli.
„Fólk er að koma yfir og leggja sig í bílnum og gera og græja áður en það fer af stað. Þetta er bara fínt flæði þarna í gegn almennt.“