Viðbyggingin að slíta sig frá hjúkrunarheimilinu

Hér má sjá sprungu sem myndaðist þar sem viðbyggingin tengist …
Hér má sjá sprungu sem myndaðist þar sem viðbyggingin tengist meginbyggingunni. mbl.is/ Þóra Birna Ingvarsdóttir

Jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaganum hefur valdið talsverðum skemmdum á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð í Grindavík auk þess sem íbúar þar hafa vaknað upp um miðjar nætur við skjálfta.

„Maður er bæði hræddur og ekki hræddur. Ég hef þekkt jarðskjálfta frá því að ég var barn. Heima hjá mér var píanó og það tók upp á því að spila sjálft í einum svona jarðskjálfta,“ segir Ása Lóa Einarsdóttir, íbúi á Víðihlíð.

Svolítið óhuggulegt

Ása Lóa hefur búið í Grindavík í 88 ár.
Ása Lóa hefur búið í Grindavík í 88 ár. mbl.is/ Þóra Birna

Skjálftarnir nú eru sambærilegir þeim sem hún hefur upplifað áður, en Ása hefur búið alla tíð í Grindavík. Henni þykir þó nóg komið.

Í gær fékk Ása aðstoð við að týna hluti niður úr hillum og af veggjum. Spurð hvenær hún ætli að setja hlutina upp aftur segist hún hið minnsta ekki ætla að gera það í dag.

„Mér finnst þetta svolítið óhuggulegt. Þegar maður er svona einn og skjálftarnir eru svona stórir þá er það mjög óþægilegt. Þegar ég fór í morgun fram að sækja Morgunblaðið þá var forstöðukonan að sópa gólfið því það hafði hrunið úr loftinu og veggnum.“

Það tekur sig varla að rétta af myndir.
Það tekur sig varla að rétta af myndir. mbl.is/Þóra Birna

Mörgum íbúum órótt

Stefanía Jónsdóttir er forstöðumaður á Víðihlíð. Hún var nýbúin að þrífa eftir að kvarnast hafði úr veggjum og lofti þar sem viðbyggingin tengist upprunalega húsinu  þegar blaðamann bar að garði. „Það var eins og viðbyggingin hefði ætlað að rifna af húsinu,“ segir Stefanía.

Stefanía segir að fyrir liggi rýmingaráætlanir ef illa fer, en er þó ekki sérstaklega áhyggjufull, enda þýði það lítið.

Hún reynir að lesa ekki of mikið af því sem fram kemur í fréttum, til þess að verða ekki of upptekin af ástandinu, og tekur því af æðruleysi. „Það tekur því samt varla að rétta við myndir á öllum veggjum,“ bætir hún við glettnislega. Stefanía hefur þó tekið eftir því að mörgum íbúum er ekki rótt yfir skjálftunum.

Stefanía Jónsdóttir, forstöðumaður á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð.
Stefanía Jónsdóttir, forstöðumaður á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð. mbl.is/Þóra Birna

Upplifði gosið í Eyjum en er hræddari núna

„Ég sat fyrir framan sjónvapið að horfa á fótbolta og þá hrundi allt í kringum mig, úr hillunum og gluggunum. Ég varð ansi hræddur, ég ætla bara að viðurkenna það,“ segir Albert sem er 92 ára gamall íbúi í Grindavík, þegar hann lýsir því hvernig hann upplifði jarðskjálftann á sunnudag.  

„Ég upplifði gosið í Vestmannaeyjum, en ég hef aldrei orðið jafn hræddur og núna,“ bætir hann við, en segist þó ekki hafa orðið var við skjálftann í nótt.

Sprungur hafa myndast í steypunni á fleiri stöðum.
Sprungur hafa myndast í steypunni á fleiri stöðum. mbl.is/Þóra Birna
Stefanía smellti mynd af brotunum áður en hún þreif þau …
Stefanía smellti mynd af brotunum áður en hún þreif þau upp. Ljósmynd/ Stefanía Jónsdóttir
mbl.is