Airbnb kannast ekki við misnotkun á bókunarkerfi

Talsmaður Airbnb kannast ekki við meinta misnotkun gestgjafa á bókunarkerfi …
Talsmaður Airbnb kannast ekki við meinta misnotkun gestgjafa á bókunarkerfi fyrirtækisins. AFP

„Það er mjög erfitt að að segja til um orðróma í hvora áttina. Okkur hefur ekki borist neitt sem styður þessar fullyrðingar,“ segir í skriflegu svari frá Airbnb við fyrirspurnum mbl.is. 

Nýlega barst mbl.is tilkynning um að mögulega væru gestgjafar sem setja eign sína á Airbnb að afbóka bókanir sem gerðar voru á tímum strangra samkomutakmarkana til þess að eiga möguleika á að leigja eignir út á hærra verði nú þegar eftirspurn er meiri. Blaðamaður hafði samband við fyrirtækið til að fá upplýsingar um hvort þetta væri tilfellið.

Talsmaður fyrirtækisins segir ekkert benda til þess að þetta sé raunverulegt vandamál. Hvort sem þetta er vandamál hér á landi eða ekki ber að taka fram að Airbnb hefur nú þegar hert regluverk hjá sér til að koma í veg fyrir nákvæmlega þetta, eins og mbl.is greindi frá í vikunni. Frá og með 22. ágúst munu sektir verða tífalt hærri en áður sem gestgjafar þurfa að greiða ef þeir segja upp bókunum með stuttum fyrirvara.

Loka fyrir dagsetningarnar

Í lokuðum Facebook-hóp fyrir ferðamenn sem ætla sér til Íslands segir kona frá erfiðum samskiptum við Airbnb. Fjögurra manna fjölskylda frá Wisconsin í Bandaríkjunum hafði fyrir nokkrum mánuðum síðan bókað gistingu á þremur mismunandi stöðum fyrstu helgina í ágúst.

Allar gistingarnar voru á höfuðborgarsvæðinu eða í stuttri akstursfjarlægð frá Reykjavík og öllum var sagt upp þegar minna en mánuður var í ferðina. Ástæðurnar sem gefnar voru voru tvíbókanir. Fjölskyldan átti í erfiðleikum með að finna nýja gistingu en náði því að lokum á sunnudaginn var.

Annað dæmi er frá 14. júní þar sem gestgjafi afbókaði gistingu vegna þess að það hafi verið bilun í hugbúnaði hjá Airbnb. Bókuninni hafði óvart verið eytt en gesturinn greiddi fullt verð. Að lokum fékk gesturinn endurgreitt en það var viku fyrir ferðalagið og þurfti hann þá að hafa hraðar hendur til að finna nýja gistingu.

Gestgjafi sem afbókar gistingu getur ekki bókað aðra gesti á sömu dagsetningar í gegnum Airbnb. Fyrirtækið lokar fyrir þann möguleika fyrir aðra gesti til að bóka. Engu að síður er möguleiki að leigja eign sína út á öðrum leigusíðum sambærilegum Airbnb. Talsmaður Airbnb sagðist ekki geta sagt til um hvort það væri tilfellið á Íslandi og vildi heldur ekki segja til um vandamálið erlendis.

mbl.is