Erfiðara fyrir „hinn almenna túrista“

Björgunarsveitarmenn á gossvæðinu í dag.
Björgunarsveitarmenn á gossvæðinu í dag. mbl.is/Ágúst Óliver

Hjálmar Hallgrímsson, vettvangsstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, leggur til að fólk bíði átekta þangað til að fyrirmæli verða gefin út um örugga leið að eldgosinu.

„Ég held að við þurfum að fá einhver svör frá vísindamönnum, eins og sést núna þá er þetta ekki óhætt þar sem aðkoma er öll úr suðri og reykurinn fer beint yfir. Nú þarf að meta þetta algjörlega, hvað þetta er mikið og hvað við eigum í vændum,“ segir Hjálmar í samtali við blaðamann við gosstöðvarnar.

Geti reynt meira á lögreglu og björgunarsveitir

Hjálmar bendir á að nú geti reynt meira á lögreglu og björgunarsveitir. „Það er flóknara að koma að þessu gosi heldur en því sem varð hérna í upphafi. Maður þarf að vera vel búinn til að fara þetta, í raun og veru bara fyrir vant göngufólk.“

Þetta er því ekki jafn túristavænt gos og síðast?

„Nei, þetta er ekki á þannig stað, þetta er á erfiðari stað fyrir hinn almenna túrista að sjá.“

mbl.is/Tómas

Innviðir séu öruggir

Hjálmar segir að innviðir, bæði byggð og vegir, ættu að vera tiltölulega öruggir, eins og er.

„Þetta er ekkert alveg óvænt, það er búið að gjósa hérna áður og við máttum búast við þessu, og við erum eiginlega bara sáttir við að það kom hér, ef það þurfti að koma.“

mbl.is