„Þeir verða ekki mikið stærri á þessu svæði“

Síðustu jarðskjálftar áttu upptök sín á svæðinu við Kleifarvatn.
Síðustu jarðskjálftar áttu upptök sín á svæðinu við Kleifarvatn. mbl.is/RAX

Ekki er hægt að útiloka að enn stærri skjálftar muni skekja Reykjanesskagann en þeir sem hafa orðið á síðustu dögum. Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur í samtali við mbl.is en öflugasti skjálftinn hingað til gekk yfir á sunnudaginn og var 5,4 að stærð.

Magnús tekur þó fram að skjálftarnir sem hafa gengið yfir í núverandi jarðskjálftahrinu séu í hæsta lagi miðað við staðsetningu og gerð skjálftanna. Er því ekki mikil hætta á mikið stærri skjálftum.

„Þetta er svona nokkurn veginn það sem má búast við. Þeir verða ekki mikið stærri á þessu svæði en það er ekki hægt að útiloka það. Þetta verður eitthvað í þessum dúr.“

Staðsetning skjálfta takmarka stærð

Hann segir stærstu skjálftana eiga sér stað þegar kvikan sem er undir Fagradalsfjalli í Geldingadölum færist til og treður sér inn á nýjum stöðum með þeim afleiðingum að flekamót gliðna í sundur.

Við það myndast mikil spenna sem veldur stórum skjálftum líkt og þeim sem íbúar á Reykjanesskaganum fundu fyrir um helgina.

Hann bendir á að lega flekamótanna komi í raun í veg fyrir það að skjálftarnir verði mikið stærri. 

„Plötumótin liggja á ská og þá verður þetta svo flókið. Gossprungurnar eru þarna á milli og þær hafa aðra stefnu en plötumótin og þess vegna erum við að sjá svona marga minni jarðskjálfta.“

Húsgögnin ættu að þola komandi skjálfta

Hann ítrekar þá mikilvægi þess að búa að hlutunum heima fyrir og annars staðar þannig að þeir fari ekki á flug við jarðskjálftanna. 

„Við búum á landi þar sem eru jarðskjálftar. Alveg eins og við förum í úlpu á veturna þá er þetta bara partur af því að búa hér að vera viðbúinn því þegar það koma jarðskjálftar. Við eigum öll að hugsa þannig að það geta dottið hlutir yfir okkur.“

Hann tekur að auki fram að ef hillur, skápar og önnur húsgögn eru búin að þola undanfarna skjálfta þá ættu þau að öllum líkindum að þola þá skjálfta sem eiga eftir að koma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert