„Töluvert kröftugra upphaf“

Ármann Höskuldsson rannsóknarprófessor og eldfjallafræðingur.
Ármann Höskuldsson rannsóknarprófessor og eldfjallafræðingur. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Þetta er aðeins kröftugra gos heldur en síðast, þetta er kannski fimmtíu prósent stærra í upphafi heldur en fyrra gosi,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur um eldgos sem hófst við Fagradalsfjall í dag.

Eldgos er hafið í Meradölum.
Eldgos er hafið í Meradölum.

Ekki þurfi að hafa áhyggjur í bili

Ármann var á leiðinni að gossvæðinu til þess að kanna aðstæður þegar mbl.is hafði samband við hann.

„Samkvæmt okkar mælingum þá er sprungan 300 til 500 metrar á lengd og frekar lítil. Hún var samfelld gosbuna í byrjun sem þýðir að þetta er töluvert kröftugra upphaf heldur en upphafið á síðasta gosi.“

Segir Ármann að ekki þurfi að hafa áhyggjur af stöðunni enn sem komið er. „Þetta er bara inni í Meradölum, það þarf nú ennþá svolítið mikið til að þeir verði fullir.“

mbl.is