Upphafið að Fagradalsfjallseldum?

Um er að ræða annað eldgosið á Reykjanesskaga á tveimur …
Um er að ræða annað eldgosið á Reykjanesskaga á tveimur árum, eftir 800 ár án eldgosa. mbl.is/Arnþór Birkisson

Eldgosið í Meradölum styður við þá kenningu að nú séu að hefjast nýir Reykjaneseldar. 

„Mér fannst eiginlega strax að þetta myndi þróast á þennan veg, að þetta yrði einhvers konar framhaldssena í ár eða áratugi, ef miðað er við söguna. Fyrri gos voru svona, á síðasta gosskeiði voru þónokkrir eldar,“ segir Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur.

Aðspurður segir hann að ekki væri úr vegi að kalla gosin í Meradölum og Geldingadölum Fagradalsfjallselda.

Nú eru nokkrir mánuðir frá lokum síðasta goss. Hve langur tími líður vanalega á milli gosa á gosskeiðum eins og þessu?

„Það er erfitt að spá fyrir um hvað þessir eldar verða langir en gosin hafa oft staðið yfir í einhverja áratugi. Kannski um tuttugu til þrjátíu ár.“

Gaus sex sinnum í sjó á síðasta tímabili

Um er að ræða annað eldgosið á Reykjanesskaga á tveimur árum, eftir 800 ára hlé. Magnús segir að erfitt sé að segja til um hve mikill tími líði á milli gosa. 

„Við þekkjum það ekki vel. Það eru voðalega rýrar heimildir, nema þá helst Reykjaneseldar. Þá gaus allavega sex sinnum í sjó á Reykjanesi. Það var á þrjátíu árum, stundum var eitt ár á milli gosa, stundum miklu meira. Þetta er breytilegt. Það er ekkert kerfi á millibilinu.“ 

Síðustu Reykjaneseldar stóðu yfir árabilið 1210 til 1240 en þá runnu fjögur hraun og gaus að minnsta kosti sex sinnum í sjó. Eldarnir eða gosskeiðin virðast standa yfir í um 500 ár hver og verða á þeim tíma flest eldstöðvakerfin virk en þó yfirleitt ekki á sama tíma.

Sprungugos, líkt og það sem er í Meradölum, voru ráðandi á síðustu þremur gosskeiðunum en eina þekkta dyngjugosið varð í Stórabolla í Brennisteinsfjallakerfinu fyrir um 2.500 árum. 

Frá gosstöðvunum í dag.
Frá gosstöðvunum í dag. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hraun í síðustu eldum þöktu stór svæði

„Síðan þekkjum við lítið eldri skeið,“ segir Magnús en eldvirknitímabilin ganga yfir á Reykjanesskaga á 600 til 800 ára fresti. Innviðir eru ekki í hættu sem stendur en Magnús segir að vel mætti búast við því að virknin færist milli eldstöðva:

„Það er kannski ágætt að þetta byrji svona rólega, síðan er hægt að búast við því að það fari að gjósa í öðrum kerfum.“

Fagradalsfjallshraunið, úr gosinu frá 2021, þekur tæpa fimm ferkílómetra en hraun sem komu upp í hverjum eldum á síðasta gosskeiði þöktu yfirleitt 40 til 50 ferkílómetra lands, en þó tvöfalt meira í Brennisteinsfjöllum, þá 95 ferkílómetra.

Aðalgosvá á Reykjanesskaga stafar af sprungugosum eins og lesa má um á Vísindavefnum. Hraun frá þeim þekja um fjórðung af flatarmáli skagans en lengst hafa hraunin runnið um 15 kílómetra frá upptökum. Mestur kraftur er jafnan í sprungugosum þegar þau hefjast en óvíst er hve lengi gosið á eftir að standa yfir.

mbl.is

Bloggað um fréttina