Gosgangan geti tekið sex klukkustundir

Gangan er alls rúmir fjórtán kílómetrar.
Gangan er alls rúmir fjórtán kílómetrar. mbl.is/Ari Páll

Ætla má að gangan að gosstöðvunum í Meradölum sé rúmir 14 kílómetrar fram og til baka. Þá má gera ráð fyrir að hún taki fimm til sex klukkustundir hið minnsta.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu björgunarsveitarinnar Þorbjarnar, en sveitin hefur tekið saman upplýsingar um hvernig best er að haga göngunni.

Styttri leiðin fimm kílómetrar

Fram kemur að gangan að nýja hrauninu og gígnum sé að lágmarki sjö kílómetrar aðra leið og hækkunin um 300 metrar. Því þýði það að gönguferðin í heild sinni geti verið rúmir fjórtán kílómetrar. Gangan að útsýnispalli þar sem gígurinn sést er þó aðeins styttri, eða rétt rúmir fimm kílómetrar aðra leið.

Þá segir að best sé að leggja bílum á bílastæðinu við gönguleið A og ganga svo eftir A-leiðinni alla leið upp á Fagradalsfjall. Þegar komið er upp á fjallið er haldið eftir sléttunni til norðvesturs þar til gosið sést.

Unnið er að slóðamálum og merkingum, en björgunarsveitin mun setja niður stikur í kvöld til þess að einfalda gönguleiðina eins og hægt er.

mbl.is