Óvænt að sjá þetta lifna við núna

„Þetta kerfi hefur verið rólegt í sex til sjö þúsund …
„Þetta kerfi hefur verið rólegt í sex til sjö þúsund ár þannig að það var óvænt að sjá það lifna við núna.“ mbl.is/Ari Páll

Kristján Sæmundsson jarðfræðingur segir að teljast megi mjög líklegt að gosskeið sé hafið á Reykjanesskaga.

„Það hefur ekki gerst þar neitt í 800 ár, svo er þetta komið núna,“ segir Kristján og vísar til eldgossins í Geldingadölum í fyrra og gossins í Meradölum sem hófst í gær.

Kristján skrifaði kaflann um Reykjanesskaga í bókina Nátt­úru­vá á Íslandi, ásamt kollega sínum Magnúsi Á. Sigurgeirssyni sem mbl.is ræddi við í gær.

Hefði búist við öðrum kerfum fyrst

„Við þekkjum þrjú svona gosskeið sem hafa staðið í um 300 til 400 ár hvert og verið svona 800 ára hlé á milli. Þetta er líklegt framhald á þeirri þróun. En þetta kerfi hefur verið rólegt í sex til sjö þúsund ár, þannig að það var óvænt að sjá það lifna við núna, maður hefði búist við að þetta mynda hefjast í öðrum kerfum.“

Kristján vísar til hinna eldstöðvakerfanna sem þekkt eru á skaganum, eins og sjá má á kortinu hér að neðan.

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar …
Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir. Kort/ÍSOR

Nánast ekki nein eldvirkni í tíu þúsund ár

Hvað þetta varðar er Kristján því á sama máli og Sig­mund­ur Ein­ars­son jarðfræðingur. Viðtal við hann birtist á mbl.is degi fyrir gosið í mars á síðasta ári, en hann er sömuleiðis það sem heita má sérfræðingur í eldvirkni á skaganum.

Gos­in síðustu árþúsund­in eru nán­ast bund­in við nokkr­ar sprungu- eða gos­rein­ar, sem hafa verið kennd­ar við Reykja­nes, Svartsengi, Krýsu­vík og Brenni­steins­fjöll. En þarna, við Fagra­dals­fjall, hef­ur nán­ast ekki verið nein eld­virkni sem heit­ir und­an­far­in tíu þúsund ár,“ sagði Sigmundur.

En svo gaus.

Kristján segir í samtali við mbl.is í kvöld að gosið í Meradölum sé framhald á upphafinu í fyrra, þegar gaus í Geldingadölum.

„Hvort því lýkur með þessu eða ekki vitum við ekki. Það gæti mallað eitthvað eftir tvö önnur ár en það veit enginn. Það er ekkert ólíklegt.“

Engin reynsla er af eldvirkni á Reykjanesskaga frá því höfuðborgarsvæðið …
Engin reynsla er af eldvirkni á Reykjanesskaga frá því höfuðborgarsvæðið byggðist upp. mbl.is/Árni Sæberg

Tekur tíma að fylla Meradali

Kristján segir ekkert vera gefið í því hvort næstu eldgos á Reykjanesskaga verði stærri.

„Við eigum eftir að sjá hvernig þetta þróast, það tekur tíma að fylla Meradali, það gæti verið vika eða hálfur mánuður í það. Það er einnig ágætur vegur sem nær þarna inn eftir.“

Hraun muni þó ekki flæða yfir veginn á næstunni. „Það gæti verið vika eða hálfur mánuður í það að minnsta kosti.“

Atburðir frá lokum ísaldar

Spurður hvort það muni ógna byggð ef stærri gos verða á næstu árum segir Kristján að erfitt sé að segja til um það.

„Sú reynsla sem við höfum af þessu kerfi, sem við köllum Fagradalsfjallskerfi, það eru atburðir sem urðu fyrir kannski sjö til níu þúsund árum, og svo enn eldra, rétt að ísaldarlokunum. Ein stærsta dyngjan á Reykjanesskaganum er í þessu kerfi, sem er kölluð Þráinsskjöldur og er nokkrir rúmkílómetrar.

Hraunið frá Hvassahrauni og suður af Vogastapa er allt þaðan, en það eru um tólf þúsund ár síðan, og við þurfum ekki að reikna með slíku, en við vitum að þessi kvika er frekar frumstæð, ólivín-rík.“

mbl.is