„Það er engin dýrð án fórnar“

mbl.is/Ágúst Óliver Erlingsson

Daníel Ingi Garðarsson athafnamaður gekk að nýju gosstöðvunum í Meradölum í gær prúðbúinn í jakkafötum og í spariskóm. Hann var einn af þeim fyrstu til að berja eldgosið augum en fáir voru mættir á staðinn á undan honum.

„Ef maður vill verða vitni að einhverju stórkostlegu þá verður maður að vera stórkostlegur,“ segir Daníel spurður hvers vegna hann hafi farið að gosstöðvunum klæddur á þennan máta. 

Ætlaði fyrst að ganga með lyftingastöng

Daníel segir í samtali við mbl.is að hann hafi verið heima fyrir þegar að hann sá fréttir um að það væri byrjað að gjósa inn á mbl.is. Ákvað hann þá skella sér í jakkafötin og bruna til Grindavíkur með nesti og hlýrri föt í bakpoka. 

„Það er engin dýrð án fórnar,“ segir Daníel en hann var stöðvaður af lögreglunni fyrir of hraðan akstur á leið sinni að gosinu enda gífurlega spenntur að komast að gosstöðvunum.

Aðspurður segir Daníel að upprunalega planið hans hafi verið að ganga að eldgosinu með lyftingastöng en að hann hafi síðan ekki nennt því. 

„Ég tek hana mögulega með næst þegar ég kem en þá þyrfti ég að fá einhverja fleiri með mér svo við getum tekið lóðarplötur með.“

Vanur að taka upp á ýmsu

Daníel kveðst vera uppátækjasamur og segist ögra sjálfum sér til skemmtunar. 

„Bara í síðustu viku fór ég upp á Esjuna með lyftingastöng. Ég ætlaði líka að fara með einhverjum vinum í dag upp á Esjuna með lóð en síðan kom þetta upp.“

Spurður um gönguna segir Daníel að hún hafi verið einkar auðveld þrátt fyrir klæðnaðinn. Þá segir hann það hafa verið svakalegt að sjá eldgosið. „Þetta er alveg unaðsleg sjón að sjá.“

Í lok samtalsins tekur Daníel þó fram að hann hvetji fólk til að fara varlega við gosið og fara sér ekki að voða í kringum gosstöðvarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert