60 lítrar af olíu á víð og dreif eftir umferðarslys

60 lítrar af díselolíu dreifðust á víð og dreif um …
60 lítrar af díselolíu dreifðust á víð og dreif um umferðareyjuna. Mynd úr safni. AFP

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út í gærkvöldi eftir að ökumaður keyrði fólksbíl sínum á umferðareyju með þeim afleiðingum að gat kom á olíutank bílsins. Olían lak þá á víð og dreif um umferðareyjuna og nærliggjandi götur. Þetta staðfestir slökkvilið höfuðborgarsvæðisins í samtali við mbl.is.

Ökumaður keyrði eftir Hrauntungu í Kópavogi klukkan tíu mínútur í tíu í gærkvöldi þegar hann missti stjórn á bíl sínum við vegaframkvæmdir og endaði ofan á nýrri umferðareyju. 

„Hann keyrði upp á hana og ofan á járnstöng sem stendur þarna upp úr,“ segir slökkviliðsmaður á vakt en að hans sögn er þetta ekki í fyrsta skipti sem ökumaður lendir í hremmingum við umferðareyjuna.

Kom gat á eldsneytistank bílsins og 60 lítrar af díselolíu láku úr tankinum og dreifðust um svæðið. Slökkviliðið var mætt stuttu síðar og gekk vel að þrífa upp olíuna. Að sögn slökkviliðsins var ekki mikil hætta á ferð og ólíklegt að kvikna myndi í olíunni.

mbl.is