Eins vel undirbúin og hægt er

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir að undirbúningur hafi verið stöðugur fyrir mögulegt eldgos á Reykjanesskaga og að undirbúningurinn sé eins góður og mögulegt er.

„Við höfum verið að undirbúa okkur stöðugt og sett á laggirnar hópa sérfræðinga og heimamanna, og almannavarna til þess að undirbúa okkur fyrir það sem við getum undirbúið.

Við vonum það besta og eins og staðan er núna þá er þetta eldgos á heppilegum stað. Við getum hins vegar ekki verið örugg um það um alla framtíð ef það verða jarðhræringar þarna áfram,“ segir hann í samtali við mbl.is.

mbl.is/Kristófer Liljar

Bregðumst við sem þjóð

Spurður hvort að hættan á eldgosi hafi verið vanmetin og hvort undirbúningur fyrir gos hafi verið vanræktur segir hann:

„Nei það held ég ekki. Við settum af stað ákveðna vinnu við að kanna hvernig á að gera varnargarða og við prófuðum það meira að segja. Þá höfum við sett vinnu í gang með tveimur verkfræðistofum, heimamönnum og almannavörnum að útfæra hvar við myndum setja slíka varnargarða og meta hvort að hægt sé að setja þá fyrirfram, sem er ekki hægt því að þú veist ekki hvar eldgosið verður og þú vilt ekki loka hraunið af vitlausum megin.

Þannig að ég held að við séum eins vel undirbúin og hægt er, en auðvitað geta gerst atburðir sem við ráðum ekki við og þurfum þá að bregðast við eftir á. En ég held að við gerum það líka sem þjóð líkt og oft áður.“

mbl.is/Arnþór

Verra útlit fyrir flugvöll í Hvassahrauni

Þó sumir telja umrædda varnargarða vera lýti á umhverfinu þá telur Sigurður að líf fólks og mikilvægi innviða landsins hljóti að hafa forgang, þó vissulega sé þörf á að fara varlega þegar það kemur að umhverfi og umhverfismati.

Á dögunum sagði Sigurður að minnkandi líkur séu á flugvelli í Hvassahrauni. Aðspurður segir hann að maður þurfi ekki að vera mikill sérfræðingur til að geta áttað sig á að það hlýtur að hafa dregið til verri myndar miðað við það sem á undan hefur gengið. Hins vegar sé rétt að bíða eftir áliti vísindamanna til að segja til um hver staðan er.

„Það er starfshópur sem hefur verið starfandi í tvö ár og hefur fullkannað alls konar hluti. Áhættumatshópur veðurstofunnar ætlar að skila drögum í haust .“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert