Gos geta komið á verri stöðum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Unnur Karen

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að eldgosið í Meradölum sé á heppilegum stað. Hún segir að mögulega sé um langtíma ástand að ræða sem mun vara á Reykjanesskaga.

„Eins og staðan er núna þá er þetta gos á heppilegum stað. Áhyggjur okkar líta fyrst og fremst til skemmri tíma að miklum mannaferðum, en það er verið að vinna að því að stýra þeim sem best má verða og almannavarnir hafa verið að biðja fólk um að fara varlega og vera ekki vanbúið sem og að gæta sín sérstaklega á hinu atriðinu sem við höfum áhyggjur af, sem er gasmengun.

Í raun og veru er það svo, vegna þess að við sáum það náttúrulega fyrir eftir síðasta gos og jarðskjálftahrinuna í aðdraganda þess, að þetta væri mögulega langtíma ástand sem myndi vara á Reykjanesskaga.

Þannig að við höfum verið að undirbúa okkur síðan þá og það er starfandi sérstakur samhæfingarhópur ráðuneyta. Það má segja það að bæði sá hópur sem og okkar viðbragðsaðilar, og í raun og veru allir ferlar, hafa gengið upp í tengslum við þetta gos. Ótrúlegt fagfólk sem við eigum á öllum vígstöðum í þeim efnum,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

mbl.is/Kristófer Liljar

Gosið kom núna á „góðum stað“

„Hvað varðar hins vegar mínar áhyggjur þá eru þær fyrst og fremst til lengri tíma af því að við getum auðvitað ekki séð fyrir hversu langvarandi þetta ástand verður, þ.e.a.s. við getum búist við jarðhræringum á Reykjanesskaga.

Gosið núna kom upp á „góðum stað“, en þau geta komið upp annars staðar á verri stöðum og þá erum við auðvitað búin að kortleggja bæði orkuinnviði og samgönguinnviði.

Af því það skiptir máli hvernig brugðist verður við, til að mynda varðandi mögulega varnargarða og sömuleiðis aðra innviða sem hægt er að verja á svæðinu, varaflugvelli út um land á öðrum stöðum til að tryggja flugsamgöngur og annað slíkt. Þannig að það er stóra myndin sem við höfum verið að vinna að undanfarna mánuði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert