Heiða Björg vill halda áfram sem varaformaður

Heiða Björg hefur gegnt embætti varaformanns síðan 2016.
Heiða Björg hefur gegnt embætti varaformanns síðan 2016. mbl.is/Golli

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, mun sækjast eftir endurkjöri til varaformanns á landsfundi Samfylkingarinnar sem fram fer í lok október.

Þetta staðfestir hún í samtali við mbl.is.

„Ég hef engin áform um annað en að halda áfram. Þetta hefur verið ótrúlega skemmtilegt og gefandi. Það er heiður að fá að gegna þessu hlutverki,“ segir Heiða Björg en hún hefur gegnt embættinu síðan árið 2016.

Enn sem komið hef­ur eng­inn ann­ar gefið kost á sér í embætti varafor­manns né formanns.

Eftir að Logi Einarsson, núverandi formaður flokksins, gaf út að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri voru Kristrún Frostadóttir þingmaður og  Dagur B. Eggertsson borgarstjóri helst orðuð við embætti formanns. Dagur hefur þó gefið út að hann sé ekki að spá í þau spil. 

mbl.is