Slæmt veður um helgina fyrir göngu að gosi

Straumurinn er orðinn mikill af ferðamönnum við gosið.
Straumurinn er orðinn mikill af ferðamönnum við gosið. mbl.is/Ari Páll

Skásta veðrið um helgina til að fara að gosstöðvunum og dást að sjónarspilinu í Meradölum verður á morgun. Þetta segir Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is. Hún tekur þó fram að veðrið um helgina sé alls ekki ákjósanlegt fyrir gönguferð að gosstöðvunum.

„Það er að ganga núna í lægðagang svo það verður að sæta lagi,“ segir Elín spurð hvenær best sé að heimsækja gosstöðvarnar. 

Þó nokkur vindur í kvöld og sunnudag

Hún segir veðrið í kvöld ekki henta vel fyrir gönguna sem getur tekið allt að sex klukkustundir. Í kvöld verður vindur á svæðinu tíu til tólf metrar á sekúndu ásamt þó nokkurri úrkomu. Þá verður einnig lágskýjað og lélegt skyggni fram eftir morgni á morgun.

Á morgun dregur úr úrkomu og vindi en verður þó áfram skýjað. Á sunnudaginn hvessir svo aftur úr suðausturátt og segir Elín að ekki ætti að ganga þessa vegalengd í veðri af þessu tagi.

„Þá verða fimmtán til átján metrar á sekúndu og úrhellisrigning svo það er ekki skynsamlegt að vera þarna á sunnudaginn.“ 

Hún segir þá að ef fólk hyggst sækja gosstöðvarnar um helgina sé best að fara á morgun en þá þurfi samt að klæða sig vel og velja réttan hlífðarfatnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert