Staða samkynhneigðra karla verri á atvinnumarkaði

Fáni hinsegin daga.
Fáni hinsegin daga. mbl.is/Ómar

Samtökin '78 kynntu í dag rannsókn á stöðu hinsegin fólks á íslenskum vinnumarkaði, en niðurstöður sýndu meðal annars að tekjur samkynhneigðra karla voru mun lægri en gagnkynhneigðra karla samanburðahópsins. 

Greiningin var unnin í samstarfi Samtakanna '78 og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, en hún var kynnt sameiginlega af Alþýðusambandi Íslands (ASÍ), Bandalagi háskólamanna (BHM) og BSRB á viðburði Hinsegin Daga. 

Samkynhneigðir með þriðjungi lægri laun

Framkvæmd var spurningakönnun meðal hinsegin fólks, en 850 manns svöruðu könnuninni í júní og júlí 2022 og er þetta sú stærsta könnun af þessum toga sem hefur verið gerð hér á landi. 

Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar sýndu fram á það að samkynhneigðir karlmenn voru árið 2019 með um þriðjungi lægri atvinnutekjur á ársgrundvelli að meðaltali, en gagnkynhneigðir karlmenn, á aldrinum 25-64 ára, þrátt fyrir að menntunarstig samkynhneigðra væri mun hærra en gagnkynhneigðra samanburðahópsins.

Keyrt var tölfræðilíkan til að leiðrétta fyrir menntun og öðrum þáttum, en niðurstaða hélst óbreytt.

Komu verst út úr heimsfaraldrinum

Samkynhneigðir karlmenn komu verst út úr heimsfaraldrinum þegar litið er til atvinnuleysis. Um 37% homma þáðu atvinnuleysisbætur árið 2020 samanborið við um 28% allra karla og 23% allra kvenna. Munurinn skýrist m.a. af því að mjög hátt hlutfall samkynhneigðra manna vinnur í þjónustugreinum á almenna markaðnum sem komu illa undan Covid-19 faraldinum. 

Sýndu niðurstöður rannsóknarinnar að samkynhneigðar konur voru með um 13% hærri atvinnutekjur að meðaltali en gagnkynhneigðar konur árið 2019 og var sama uppi á teningnum í Danmörku í nýlegri rannsókn sem unnin var eftir sömu aðferðafræði.

Hinseginleiki of stórt áherslumál

Um 40% aðspurðra í könnun samtakanna segjast lenda í því að hinseginleiki sinn sé of stórt áherslumál í samskiptum á vinnustöðum og um helmingur lendir enn í því að óviðeigandi ummæli séu viðhöfð vegna þess á vinnustað. Aðeins um helmingur allra aðspurðra í könnunni voru ánægðir með stefnu stjórnvalda í málefnum hinsegin fólks, en aðeins um 20% transfólks.

„Það er hluti af frekari rannsókn að komast til botns í þessu, en það eru greinilega ákveðnir fordómar í samfélaginu, þetta gæti verið framgangsvandi í starfi,“ segir Álfur Birkir Bjarnason, formaður samtakanna '78.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert